Guðlaugur Þór ræddi loftslagsmál á fundi með John Kerry
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í sérstökum hringborðsumræðum um loftslagsmál í tengslum við leiðtogafund forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, með stærstu ríkjum heims. Til hringborðsumræðunnar boðaði John Kerry, sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum og fyrrverandi utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór lagði áherslu á að Ísland væri staðráðið í að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. „Ísland telur sig vera í fremstu röð í þróun og notkun tækni við geymslu og förgun koltvísýrings. Þar hefur Carbfix aðferðin verið þróuð og nýtt með hagkvæmum hætti til niðurdælingar á koltvísýringi í jarðlög þar sem hann umbreytist í stein,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars.
Hann sagði áherslur Íslands vera fyrst og fremst á samdrátt í losun, kolefnishlutleysi og náttúrulegar lausnir. Í máli ráðherra kom einnig fram að Ísland muni auka bindingu koltvísýrings með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis en ríki heims þurfi jafnframt að auka föngun og bindingu koltvísýrings frá iðnaði á meðan umbreyting frá jarðefnaeldsneyti til grænnar orku fer fram.
„Ísland mun draga úr kolefnislosun sinni með metnaðarfullum markmiðum um samdrátt í flutningum, fyrst á landi og á sjó, síðan í flugi,“ sagði Guðlaugur Þór.
Með leiðtogafundi Biden vonast Bandaríkin til þess að ríki heims auki metnað sinn í loftslagsmálum og komi til næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna reiðubúin til að standa við það markmið að takmarka hækkun hitastigs á jörðinni af mannavöldum við 1,5 gráður á Celsius. Næsta loftslagsráðstefna verður haldin í Glasgow í nóvember.
Í umræðunum fagnaði Guðlaugur Þór sérstaklega sterkri endurkomu Bandaríkjanna í alþjóðlega samvinnu um lausn loftslagsvandans og lýsti ánægju með það leiðandi hlutverk sem þau ætla sér á þeim vettvangi.