Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra opnar Hornstrandastofu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnar Hornstrandstofu með rafrænum hætti. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði í dag formlega Hornstrandastofu á Ísafirði. Í ljósi samkomutakmarkana ávarpaði ráðherra gesti í gegnum fjarfundarbúnað.

Hornstrandastofa er gestastofa fyrir Friðlandið á Hornströndum og er til húsa í sögufrægu húsi, Björnsbúð í miðbæ Ísafjarðarbæjar. Í gestastofunni hefur verið sett upp sýning sem dregur fram meginaðdráttarafl friðlandsins; mikilfengleg fuglabjörg, tegundaauðgi og melrakkann, en Hornstrandir hafa verið griðland hans síðan árið 1995.

Við opnunina fór Jakob Falur Garðarsson yfir sögu Björnsbúðar og tengsl hennar við Hornstrandir. Þá kynnti Kristín Ósk Jónasdóttir, teymisstjóri Umhverfisstofnunar og sérfræðingur fyrir friðlandið, sýninguna og tilurð hennar. Á sýningunni m.a. að finna myndbandsverk um bjargfugla í Súlnastapa utan við Hælavíkurbjarg og þá hefur umhverfi við eldhúsglugga á Hornströndum verið endurskapað, sem gefur gestum tækifæri til að upplifa margbrotið útsýni líkt og fólk sem þar bjó áður eða dvelst að sumri upplifði.

„Stofnun Friðlands á Hornströndum á sínum tíma fólst í því að vernda víðfeðmt svæði með einstakri náttúru og dýralífi þar sem kyrrðin ríkir og innviðir eru ekki áberandi. Náttúrulegir ferlar ráða för og um leið sköpum við tækifæri fyrir komandi kynslóðir til þess að njóta og upplifa svæðið sem á sér fáa líka, ef einhverja, í heiminum. Innan svæðisins eru mikilfengleg fuglabjörg, einstakt gróðurfar og menningarminjar sem standa sem minnisvarðar um liðna tíð,“ sagði Guðmundur Ingi við opnun Hornstrandastofu. Þá kom hann á framfæri þökkum sínum til Hornstrendinga, sem ólust upp á svæðinu eða voru afkomendur þeirra sem það gerðu, sem sáu mikilvægið í friðlýsingu svæðisins á sínum tíma og stofna þar friðland. ,,Það er svo óskaplega mörgum annt um svæðið, bera til þess sterkar taugar og vilja halda hróður þess á lofti.“

  • Kristín Ósk Jónasdottir og Jónína Jakobsdóttir,  Og Jónína Jakobsdóttir frá Kvíum, en útsýnið úr eldhúsglugganum er einmitt þaðan.  - mynd
  • Gestir við opnun Hornstrandastofu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta