2% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda
- Samdráttur í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (án landnotkunar og skógræktar) var um 2% milli áranna 2018 og 2019 og er það mesti samdráttur sem mælst hefur frá árinu 2012.
- Losun á beinni ábyrgð Íslands dróst saman um 8% frá árinu 2005 til 2019.
- Heildarlosun Íslands (án landnotkunar og skógræktar) árið 2019 hefur aukist um 28% frá árinu 1990, sem rekja má til aukinnar stóriðju á fyrsta áratug aldarinnar.
Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda, sem stofnunin hefur skilað til ESB og Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Meginbreytingar í losun milli 2018 og 2019 voru þessar:
- aukning frá kælimiðlum (44 kt CO2-íg, eða +27%)
- aukning frá jarðvarmavirkjunum (7 kt CO2-íg, eða +5%)
- samdráttur frá fiskiskipum (-30 kt CO2-íg, eða -5,4%),
- samdráttur frá urðun úrgangs (-30 kt CO2-íg, eða -16%),
- samdráttur frá vegasamgöngum (-19 kt CO2-íg, eða -2,0%)
- samdráttur frá nytjajarðvegi (-19 kt CO2-íg, eða -2,0%)
- samdráttur frá málmframleiðslu () (-40 kt CO2-íg, eða -2,1%)
Skýrslan sýnir að losun gróðurhúsalofttegunda sem telst á beinni ábyrgð Íslands (heildarlosun án LULUCF og ETS) nam 2.883 kt CO2-íg árið 2019. Það jafngildir 8% samdrætti miðað við árið 2005.
„Tölurnar sýna að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er hafinn“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. ,,Það er gríðarlega ánægjulegt og sýnir okkur að kyrrstaðan er liðin. Þetta er mesti samdráttur sem sést hefur í losun í tæpan áratug. Fyrir mér er þetta sönnun þess að aðgerðir okkar og hugarfarsbreyting síðustu ára eru farin að skila árangri.“
Vegasamgöngur stærsta uppspretta losunar
Helstu uppsprettur losunar sem falla undir beina ábyrgð Íslands árið 2019 voru vegasamgöngur (33%), olíunotkun á fiskiskipum (18%), iðragerjun (10%), nytjajarðvegur (8%), losun frá kælimiðlum (F-gös) (7%) og losun frá urðunarstöðum (6%).
Samdrátt í losun mátti helst rekja til vegasamgangna, fiskiskipa, landbúnaðar og urðunar úrgangs. Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 2% eða um 19kt CO2 milli áranna 2018 og 2019, og er það í fyrsta skipti sem sjá má samdrátt í þessum flokki síðan 2014. Umhverfisstofnun gerði bráðabirgðagreiningu á þessum samdrætti í samstarfi við Hagstofu Íslands sem bendir til þess að um um 1/3 samdráttarins frá vegasamgöngum sé vegna innlendra aðila en um 2/3 sé vegna fækkunar ferðamanna á milli áranna 2018 og 2019. Losun frá landbúnaði dróst saman um 13kt CO2 íg vegna færri húsdýra en losun vegna urðunar dróst saman um 30 kt CO2 íg og er það aðallega vegna aukinnar metansöfnunar á Íslandi. Þá dróst losun frá fiskiskipum saman um 30kt CO2 íg.