Ísland aðili að samningum um ríkisfangslausa einstaklinga
Samningar Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi öðlast gildi gagnvart Íslandi í dag.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur með bréfi til dómsmálaráðherra fagnað því sérstaklega að Ísland sé orðið aðili að umræddum samningum og bent á að það sé mikilvægt skref í baráttunni gegn ríkisfangsleysi á heimsvísu. Ekki er vitað hversu margir einstaklingar teljast ríkisfangslausir, en vitað er um a.m.k. 4,2 milljónir ríkisfangslausra einstaklinga í 79 löndum, þar af 500.000 í Evrópu. Hins vegar er talið að mun fleiri falli í þennan hóp en þessar tölur segja til um.
Samningurinn um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954 fjallar um þjóðfélagslega stöðu þeirra sem teljast ríkisfangslausir og gerir ráð fyrir að ríkisfangslausir njóti almennt sömu réttinda og aðrir útlendingar og í sumum tilvikum sömu réttinda og borgarar ríkisins, einkum varðandi félagsleg réttindi. Samningurinn um að draga úr ríkisfangsleysi frá árinu 1961 leggur ýmsar skyldur á ríki til að veita einstaklingum ríkisfang sem hefðu ella orðið ríkisfangslausir.
Dómsmálaráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að því að íslenska ríkið gerist aðili að þessum samningum og hafa ýmsar lagabreytingar verið gerðar til þess að aðlaga íslensk lög að þeim. Í þeim tilgangi hefur ráðuneytið átt í góðu samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna en hvatinn að því samstarfi var meðal annars átak stofnunarinnar sem miðar að því að eyða ríkisfangsleysi á heimsvísu, sem hófst árið 2014 og stendur til ársins 2024. Íslenska ríkið samþykkti einnig tilmæli um að fullgilda samningana í síðustu allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála hér á landi árið 2016 (UPR). Ísland gerðist formlega aðili að samningunum 26. janúar 2021 og taka þeir gildi gagnvart Íslandi 90 dögum síðar, sem er sem fyrr segir í dag.