Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisþing haldið á morgun

Umtalsverður áhugi er á Umhverfisþingi sem haldið er á morgun og hafa nú á fjórða hundrað manns tilkynnt um þátttöku sína, en vegna kórónuveirufaraldursins fer þingið fram rafrænt.

Umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til umhverfisþings annað hvert ár samkvæmt ákvæðum þar að lútandi í lögum um náttúruvernd. Þetta er tólfta þingið sem haldið er og verða umfjöllunarefnin að þessu sinni náttúruvernd, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið.

Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), ávarpar þingið. Hún mun m.a. ræða um stöðu umhverfismála á heimsvísu og hvaða lærdóm megi draga af þeim miklu áhrifum sem heimsfaraldurinn hefur haft á ríki heims og hvaða breytinga megi vænta í kjölfar hans.

Þá afhendir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Kuðunginn sem veittur er fyrir framúrskarandi umhverfisstarf fyrirtækis og eins útnefnir ráðherra Varðliða umhverfisins, viðurkenningu sem er veitt grunnskólanemum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.

Í tveimur málstofum þingsins verður horft fram á veginn í veigamiklum umhverfismálum samtímans. Í málstofu um loftslagsmál og hringrásarhagkerfið verður m.a. fjallað um næstu skref í orkuskiptum í samgöngum, um framtíðarsýn Carbfix-lausnarinnar og um tækifærin í hringrásarhagkerfinu. Auk þess munu ungir vöruhönnuðir deila sýn sinni á framtíðina.

Í málstofu um náttúruvernd verður rætt um vernd og endurheimt vistkerfa og um landbúnað og náttúruvernd. Fulltrúi frá dönsku náttúruverndarsamtökunum segir frá nýju samkomulagi sjómanna og náttúruverndarhreyfingarinnar þar í landi um ný verndarsvæði í hafi og fjallað verður um víðerni.

Þinginu verður streymt á vef Stjórnarráðsins og Facebook.

Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á www.umhverfisthing.is og eru þátttakendur beðnir um að ská sig þar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta