Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisþing hafið - bein útsending

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, setur Umhverfisþing. - myndGolli

Útsending frá Umhverfisþingi hófst kl. 13 í dag. Mikill áhugi er á þinginu, sem að þessu sinni er haldið rafrænt, og voru í gær um 400 manns búin að skrá sig.

Þetta er tólfta þingið sem haldið er og eru umfjöllunarefnin að þessu sinni náttúruvernd, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið.

Þingið hófst með ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem ræddi m.a. um aukna áherslu á umhverfis- og loftslagsmál í samfélaginu, sem að hans mati eru mikilvægustu mál samtímans. „Þannig hafa til dæmis framlög til loftslagsmála bara í ráðuneytinu aukist um 800% á kjörtímabilinu,“ sagði Guðmundur Ingi. Nú séu ekki bara settar fram vel unnar og ígrundaðar áætlanir, heldur fylgi þeim fjármagn.

„Á þessu kjörtímabili höfum við farið úr pólitískri kyrrstöðu yfir í raunverulegan árangur í loftslagsmálum. Það varð 2% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2018 og 2019 en þetta er mesti samdráttur sem við höfum séð síðan árið 2012. Þarna skiptir miklu máli samdráttur í losun frá vegasamgöngum og úrgangi. Og höfum í huga að þetta er áður en kórónuveiran skall á. Ég geri mér samt algerlega grein fyrir því að á næstu árum þarf samdráttur að aukast enn meira, en kyrrstaðan hefur verið rofin.“ 

Þá veitti ráðherra Íslandsbanka Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Foldaskóla, Öldutúnsskóla og Húsaskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins.

Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), ávarpaði einnig þingið og sagði þjóðir heims verða að halda árvekni sinni. Ekki aðeins gagnvart kórónuveirufaraldrinum, heldur líka gagnvart umhverfi og náttúru. Hlutirnir megi ekki fara í sitt fyrra horf er faraldrinum lýkur. Hið venjulega orkufreka hagkerfi og ósjálfbær neysla sé ekki það norm sem þjóðir heims megi snúa aftur til.

„Alþjóðasamfélagið hefur ekki gert nægilega mikið,“ sagði Andersen og kvað heiminn enn stefna í átt að meira en þriggja gráðu hækkun lofthita á þessari öld þrátt fyrir auknar skuldbindingar um að draga úr losun. „Það er ekki of seint að snúa við ef við notum vísindi og samstöðu sem leiðarljós. Og á árinu 2021 höfum við tækifæri til að gera það með því að setja græna endurreisn eftir faraldurinn í forgang.“ Andersen benti á að Ísland hafi sýnt að það sé tilbúið að nýta sér þau tækifæri. „Nýjasta dæmið um það eru áform ríkisstjórnarinnar um að verja yfir 9 milljörðum króna í grænar endurreisnaraðgerðir í skógrækt, í endurheimt vistkerfa og í vistvæna ferðaþjónustu. Þetta er frábær fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir að fylgja eftir.“ 

 

Umhverfisþing heldur áfram í tveimur málstofum þar sem fjallað er um loftslagsbreytingar, hringrásarhagkerfið og náttúruvernd.

Hægt er að fylgjast með þinginu í beinni útsendingu á vef Stjórnarráðsins

Dagskrá þingsins

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta