Víðtækt samstarf Íslandsstofu og Business Sweden
Íslandsstofa og systurstofa hennar í Svíþjóð, Business Sweden, hafa gert með sér samkomulag sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden. Guðlaugur Þór Þórðarson kynnti þessi tímamót í ávarpi sínu á ársfundi Íslandsstofu í dag.
Auk þess að opna dyr fyrir íslensk fyrirtæki út í heim felst einnig í samkomulaginu að stofurnar munu vinna saman í markaðs- og kynningarmálum í sértækum verkefnum þar sem þau eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta.
„Þetta samkomulag skapar nýja möguleika fyrir íslensk fyrirtæki til þess að hasla sér völl á erlendis. Sú aðstoð sem þeim býðst getur stytt leið þeirra á markað og auðvelda þeim að koma undir sig fótunum í ókunnu umhverfi,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Frederik Fexe, framkvæmdastjóri Business Sweden, segir tímasetningu samstarfsins afar góða. „Nú þegar markaðir eru að opnast á ný finna fyrirtæki sig í nýju viðskiptalandslagi eftir heimsfaraldur. Þetta eru kjöraðstæður til þess að hleypa af stokkunum samstarfi Business Sweden og Íslandsstofu til þess að styðja við fyrirtæki til þess að auka sölu á erlendum mörkuðum.“
Samkomulagið hefur þegar tekið gildi og má reikna með að fyrstu íslensku fyrirtækin geti notið góðs af þessu samstarfi innan skamms.
Ræðu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á ársfundinum má lesa hér.