Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerð um endurgreiðslur fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna framlengd um mánuð

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja um einn mánuð reglugerð 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Ráðherra áréttar að í reglugerð nr. 1350/2020 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu er sett fram hámark á greiðslur sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu á tilteknu tímabili. Þetta er mikilvægur hluti af því að tryggja öllum sem bestan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Þrátt fyrir það hafa sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar í sumum tilvikum sett gjaldskrár sem standa til hliðar við opinbera kerfið sem veldur því að sjúklingar þurfa að greiða tvo reikninga þegar þeir sækja þjónustu sérgreinalækna. Annan þeirra fá þeir endurgreiddan í hlutfalli við heildarútgjöld sín til heilbrigðisþjónustu. Hinn reikninginn þurfa þeir að greiða að fullu til sérgreinalæknisins og fá sjúklingar þann kostnað ekki endurgreiddan og hann reiknast ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklingsins. Gjöldin standa því kerfi fyrir þrifum sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Heilbrigðisráðherra beinir þeim tilmælum til sérgreinalækna sem hyggjast hafa milligöngu um endurgreiðslur sjúkratrygginga á hlut sjúklinga sinna að þeir starfi í samræmi við greiðsluþátttökukerfið sem tryggir sjúklingum sanngjarna greiðsluþátttöku.

Í 40. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, er fjallað um samninga um heilbrigðisþjónustu og segir þar að samningar skuli gerðir í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hafa skuli hagsmuni sjúkratryggðra að leiðarljósi við gerð samninga. Þá segir að samningar skuli m.a. kveða á um magn, tegund og gæði þjónustu. Ríkisendurskoðun sem og erlendir sérfræðingar hafa bent á að samningar við sérgreinalækna hafi ekki uppfyllt framangreind skilyrði laganna og hafi ekki byggt á greiningu á þörfum sjúkratryggðra. Stefna ráðherra í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er að kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu séu skilvirk og í samræmi við lög og stefnumörkun á hverjum tíma sem og að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað í heilbrigðisþjónustunni.

Samningaviðræður standa yfir milli sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og Sjúkratrygginga Íslands. Heilbrigðisráðherra áréttar að afar brýnt sé að samningar náist um þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, enda þjónusta þeirra mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu landsins sem fjöldi sjúklinga reiðir sig á.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta