Hoppa yfir valmynd
6. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kynnt á Alþingi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti í dag Alþingi skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Skýrslan gefur greinargott yfirlit yfir stöðu utanríkismála Íslands og helstu atburði á þeim vettvangi undanfarna tólf mánuði.

Ráðherra hóf ræðuna á aðlögun utanríkisþjónustunnar að breyttum aðstæðum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Kappkostað hefði verið að mæta þörfum íslenskra fyrirtækja og borgara bæði hvað einstök málefnasvið varðar en einnig með tilliti til rekstrar og skipulags.

„Leiðarljósið í þeim efnum, eins og allar götur frá stofnun utanríkisþjónustunnar í apríl 1940, hefur verið að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar á erlendum vettvangi. Breytt forgangsröðun og breytingar sem gerðar í upphafi kjörtímabilsins hafa skipt sköpum um það hversu vel hefur tekist til í þeim þrengingum sem vonandi eru brátt að baki,“ sagði ráðherra á Alþingi.

Guðlaugur Þór lagði áherslu á aukið mikilvægi málefna norðurslóða sem hafa verið rauður þráður í íslenskri utanríkisstefnu á síðustu misserum. „Alþjóðlegur áhugi á svæðinu hefur aukist töluvert, einkum vegna væntinga um opnun siglingaleiða og möguleika á auðlindanýtingu. Við sjáum jafnframt vissar breytingar á öryggisumhverfinu. Í ljósi þessa og í tilefni af því að Ísland gegnir nú formennsku í Norðurskautsráðinu var tímabært að ráðast í endurskoðun norðurslóðastefnunnar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins í Reykjavík 19.-20. maí næstkomandi markar lok formennskuáætlunar Íslands undanfarin tvö ár þar sem áhersla hefur verið lögð á þrjú meginsvið: málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, og fólk og samfélög á norðurslóðum. „Vonir standa til þess að á ráðherrafundinum samþykki ráðherrar aðildarríkjanna niðurstöður verkefna sem unnin voru í formennskutíð Íslands og starfsáætlun ráðsins undir komandi formennsku Rússlands,“ sagði ráðherra.

Áhersla á samstarf atvinnulífs og stjórnvalda

Ráðherra benti jafnframt á að störf Íslands á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hefðu skilað árangri og vakið heimsathygli. „Því miður hefur undanfarið ár sýnt að nauðsynlegt er að bregðast staðfastlega við þeirri neikvæðu þróun sem víða hefur orðið á mannréttindum og frelsi, oft í skjóli heimsfaraldursins og hrinda atlögum að grundvallarþáttum alþjóðakerfisins og alþjóðalögum sem byggst hafa upp frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór gerði samstarf atvinnulífs og stjórnvalda að umtalsefni og undirstrikaði að eitt helsta verkefni stjórnvalda á tímum kórónuveirunnar sé að takmarka áhrif heimsfaraldursins fyrir almenning og efnahagslíf og leita um leið tækifæra fyrir land og þjóð. „Vorið 2020 skipaði ég starfshóp til þess að móta tillögur að því hvernig utanríkisþjónustan geti betur stutt við atvinnulífið við þessar aðstæður. Á grundvelli skýrslu starfshópsins, Saman á útivelli, var sérstök viðskiptavakt sett á laggirnar í október 2020. Hún er byggð á vel heppnaðri fyrirmynd borgaraþjónustunnar og er dæmi um hvernig stjórnsýslan getur lagað sig að breyttum aðstæðum til hagsbóta fyrir íslensk fyrirtæki og einstaklinga,“ sagði ráðherra.

Guðlaugur Þór sagði Heimstorg vera annað dæmi um hvernig vörn hefur verið snúið í sókn en það var sett á fót í samstarfi utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu og tók formlega til starfa í mars. „Heimstorgið á að brúa bilið milli atvinnulífs og stjórnvalda. Þannig er hlutverk þess að miðla upplýsingum til íslenskra fyrirtækja um möguleika á stuðningi við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Viðskiptafrelsi utan Evrópusambandsins

Ráðherra sagði einu leiðina út úr hinum tímabundnu þrengingum í efnahagsmálum sem rekja má til faraldursins vera aukin verðmætasköpun og aukin útflutningsverðmæti. „Með því að standa utan við Evrópusambandið nýtur Ísland viðskiptafrelsis og getur gert sína eigin fríverslunarsamninga, annað hvort upp á eigin spýtur eða í samfloti með öðrum ríkjum,“ sagði ráðherra og undirstrikaði mikilvægi aðildar Íslands að EFTA.

Þá væri mikilvægt að rækta áfram viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna sem eru áfram stærsta einstaka viðskiptaland Íslands. „Heimsfaraldurinn hefur vissulega sett strik í reikninginn en undanfarið hafa efnahags- og viðskiptamál milli ríkjanna verið rædd með formlegum hætti á breiðum grundvelli með það að markmiði að undirbúa jarðveginn fyrir mögulegar fríverslunarviðræður í náinni framtíð,“ sagði Guðlaugur Þór.

Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað í utanríkisráðuneytinu vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og í ræðunni áréttaði ráðherra mikilvægi þess að ljúka viðræðum EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland um fríverslunarsamning eins fljótt og auðið er. „Ljóst er að framtíðarsamningur við Bretland er afar mikilvægur fyrir íslenska útflutningshagsmuni og því skiptir miklu máli að vel takist til,“ sagði ráðherra.

Ráðhera benti jafnframt á í ræðunni að Ísland hefði ekki farið varhluta af þeim breytingum sem hafa orðið í öryggismálum á heimsvísu undanförnum árum. „Viðbrögð Íslands við breyttu öryggisumhverfi felast meðal annars í að tryggja viðbúnað og gistiríkjastuðning við liðssveitir Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins sem hafa viðkomu á öryggissvæðunum en líka aukinni þátttöku í samstöðuverkefnum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Skýrslu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum en jafnframt hefur verið gefið út sérstakt hefti með útdrætti úr skýrslunni. Fjölmargar tölulegar upplýsingar koma fram í skýrslunni sem settar eru fram á myndrænan hátt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta