Hoppa yfir valmynd
10. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra undirritar nýjan rammasamning við UNICEF

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Henrietta Fore, framkvæmdarstjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, skrifuðu í dag undir nýjan rammasamning um stuðning Íslands við UNICEF. Samningurinn gildir til loka árs 2023 og veitir heildræna umgjörð um samstarf Íslands og stofnunarinnar. Ísland leggur áherslu á kjarnaframlag sem veitir stofnuninni sveigjanleika til að bregðast við þar sem þörfin er mest. Kjarnaframleg Íslands til UNICEF fyrir árið 2021 nemur 130 milljónum íslenskra króna.

„UNICEF er leiðandi í báráttunni fyrir réttindum barna og býr yfir langri og dýrmætri reynslu þegar kemur að hjálparstarfi fyrir börn í neyð. Sú reynsla hefur reynst ómetanleg á tímum heimsfaraldurs COVID-19 og við erum stolt af okkar samstarfi við þessa mikilvægu stofnun,“ sagði Guðlaugur Þór við tilefnið, en samningurinn var undirritaður á fjarfundi.

UNICEF er ein af áherslustofnunum Íslands í þróunarsamvinnu og sinnir fjölmörgum verkefnum sem ætlað er að efla réttindi barna, sinna neyðarhjálp, og bæta lífsgæði og aðgang að þjónustu. Ísland hefur stutt við stofnunina í fjölda ára, bæði með kjarnaframlögum og framlögum í tvíhliða þróunarsamvinnu.

Heimsfaraldur COVID-19 hefur haft gífurleg áhrif á aðgang barna að hreinu vatni, hreinlætisvörum, næringu, menntun og heilbrigðisþjónustu. Þá er talið að um tíu milljónir stúlkna eigi á hættu að vera þvingaðar í barnahjónaband næsta áratuginn sem afleiðing af COVID-19. Undanfarið ár hefur UNICEF leikið lykilhlutverk sem viðbragðsaðili vegna neyðarástands sem skapast hefur vegna heimsfaraldurs COVID-19. Stofnunin hefur auk þess margra áratuga reynslu í bólusetningum og leiðir nú innkaup og afhendingu á bóluefnunum gegn kórónaveirunni til yfir níutíu lág- og millitekjuríkja. 

 
  • Henrietta Fore, framkvæmdarstjóri UNICEF. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta