Árlegur alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga
Í dag, 12 maí, er árlegur alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga.
Dagsetning alþjóðadags hjúkrunarfræðinga er valin til að fagna fæðingardegi Florence Nightingale, brautryðjanda á sviði nútíma hjúkrunar. Árlega er haldið upp á þennan dag til þess að varpa ljósi á það mikilvæga framlag sem hjúkrunarfræðingar leggja til samfélagsins. Þetta mikilvæga hlutverk hefur verið sýnilegra í samfélaginu öllu á síðasta ári, eða allt frá því að heimsfaraldur Covid-19 braust út. Hjúkrunarfræðingar hafa, ásamt öðrum heilbrigðisstéttum, unnið sleitulaust að því að hjúkra, lækna og hlúa að sjúklingum og nú á síðustu mánuðum við að verja landann með bólusetningu fyrir þeim skæða vágest sem Covid-19 er. Þó hægt væri að lýsa þakklæti okkar til allra heilbrigðisstarfsmanna á hverjum degi, þá á það sérlega vel við í dag á alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga að þakka hjúkrunarfræðingum sérstaklega fyrir þeirra ómetanlega framlag.
Árlega er tilgreint þema fyrir alþjóðadag hjúkrunarfræðinga og hefur Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga ákveðið að í ár verði þema alþjóðadags hjúkrunarfræðinga: Rödd til að leiða - framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu (Nurses - A Voice to Lead - A vision for future healthcare).
Sjá má frekari upplýsingar á heimasíðu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga