Hoppa yfir valmynd
17. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins í Reykjavík

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna við komuna til Íslands í kvöld - myndUtanríkisráðuneytið/Sigurjón Ragnar

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins verður haldinn í Reykjavík síðar í þessari viku og er von á utanríkisráðherrum allra aðildarríkjanna hingað til lands af því tilefni. Fundurinn markar lok tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. 

Norðurskautsráðið heldur ráðherrafundi á tveggja ára fresti, í lok hvers formennskutímabils. Sökum heimsfaraldurs kórónuveiru verður fyrirkomulag fundarins með breyttu sniði og minna að umfangi til að auðvelda framkvæmd með tilliti til sóttvarna. Þátttaka á fundinum er því takmörkuð við utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna átta, auk ráðherra Færeyja og Grænlands, og samtök frumbyggja. Aðrir taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fundurinn hefst með vinnukvöldverði utanríkisráðherranna átta á miðvikudagskvöld. Daginn eftir fer svo eiginlegur fundur þeirra fram. Þar er búist við að ráðherrayfirlýsing ráðsins verði samþykkt, svonefnd Reykjavíkuryfirlýsing, auk stefnu ráðsins til næstu tíu ára. Á fundinum afhendir svo Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands formennskukeflið en Rússar taka nú við formennsku í ráðinu. 

„Með fundinum í Reykjavík bindum við enda á vel heppnaða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Við höfum náð öllum þeim markmiðum sem við settum okkur með formennskunni þrátt fyrir miklar áskoranir sem fylgt hafa heimsfaraldrinum. Sú staðreynd að allir utanríkisráðherrar aðildarríkjanna mæta til fundarins við þessar aðstæður sýnir glöggt að ráðið stendur styrkum fótum á 25 ára afmælisárinu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Fjölmargir tvíhliðafundir eru ráðgerðir samhliða ráðherrafundinum. Í fyrramálið fundar Guðlaugur Þór með Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hann kom hingað til lands ásamt föruneyti í kvöld. Blinken hittir jafnframt forsætisráðherra og forseta Íslands á morgun en síðdegis skoða þeir Guðlaugur Þór Hellisheiðarvirkjun og Carbfix-verkefnið. Guðlaugur Þór mun jafnframt eiga tvíhliðafundi með utanríkisráðherrum Kanada, Finnlands, Svíþjóðar, Grænlands og Rússlands á næstu dögum, auk lögmanns Færeyja. 

Norðurskautsráðið skipa utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna átta, leiðtogar sex frumbyggjasamtaka á norðurslóðum, fulltrúar sex vinnuhópa ráðsins og annarra starfseininga þess og fulltrúar um það bil 40 áheyrnaraðila ráðsins sem skiptast nokkuð jafnt milli ríkja, alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka.

Yfirskrift formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021, Saman til sjálfbærni á norðurslóðum, vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjast samvinnu yfir landamæri. Formennskuáherslurnar eru málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanleg orka, fólkið á norðurslóðum og öflugara Norðurskautsráð. 

Myndir sem tengjast ráðherrafundinum verða birtar á Flickr-síðu utanríkisráðuneytisins.

  • Flugvél bandaríska utanríkisráðherrans á Keflavíkurflugvelli í kvöld - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta