Hoppa yfir valmynd
20. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Fyrsta stefnuáætlun Norðurskautsráðsins samþykkt á ráðherrafundi í Reykjavík

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekur við formannskeflinu úr hendi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - myndUtanríkisráðuneytið/Gunnar Vigfússon

Norðurskautsríkin áréttuðu skuldbindingu ráðsins um að viðhalda friði, hagsæld og sjálfbærni á norðurslóðum á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í dag - fyrsta fundi ráðsins þar sem fundarmenn hittust augliti til auglitis frá því að heimsfaraldurinn brast á.

Á 12. fundi Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í dag bæði í Reykjavík og á netinu, komu saman ráðherrar Norðurskautsríkjanna átta og leiðtogar þeirra sex samtaka frumbyggja sem hafa föst sæti í ráðinu. Fundurinn markaði lok tveggja ára formennsku Íslands og upphaf formennsku Rússlands sem nú tekur við henni til næstu tveggja ára.

Utanríkisráðherrarnir átta undirrituðu Reykjavíkuryfirlýsinguna og áréttuðu þannig skuldbindingu ráðsins um að viðhalda friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu á norðurslóðum. Með yfirlýsingunni leggja ráðherrarnir áherslu á einstaka stöðu norðurskautsríkjanna til að stuðla að ábyrgum stjórnunarháttum á svæðinu og þá undirstrika þeir mikilvægi þess að takast þegar í stað á við loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Í tilefni af 25 ára afmæli ráðsins samþykktu ráðherrarnir einnig fyrstu stefnuyfirlýsingu ráðsins, en hún endurspeglar sameiginleg gildi, markmið og metnað norðurskautsríkjanna og samtaka frumbyggja. Verður hún höfð að leiðarljósi í starfi ráðsins á komandi áratug.

„Við skulum orða það þannig að formennskutíð okkar hafi verið allt annað en venjuleg! COVID-19 heimsfaraldurinn lokaði heiminum sem og áætlunum okkar fyrir formennskutímabilið þegar það var hálfnað,” sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Ég er mjög stoltur af því að háttsettir embættismenn okkar sem fara með málefni norðurskautsins hafi getað komið sér saman um fyrstu stefnuáætlun Norðurskautsráðsins. Með stefnuáætluninni munum við í fyrsta skipti getað veitt ráðinu langtímaleiðsögn um starfsemi þess.”

Á formennskutímabili sínu hefur Ísland lagt áherslu á verkefni tengd málefnum hafsins á norðurslóðum, loftslagsmál og grænar orkulausnir, fólk og samfélög á norðurslóðum og eflingu Norðurskautsráðsins. Það sem ráðið hefur áorkað á formennskutímabili Íslands felst meðal annars í áfangaskýrslum sem auka þekkingu á skipaumferð á norðurskautssvæðinu og styrkja viðbrögð við neyðartilvikum á sjó á svæðinu, leggja mat á loftslagsáhrif á vistkerfi svæðisins, draga úr mengun, stuðla að velferð íbúa norðurskautsins og ýmislegt fleira. 

Á meðal viðamikilla skýrslna sem samþykktar voru á ráðherrafundinum má telja uppfærða skýrslu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum fyrir árið 2021, skýrslu um ástand líffræðilegrar fjölbreytni á landi á norðurskautssvæðinu, svæðisbundna aðgerðaáætlun um rusl í sjó á norðurslóðum, skýrslu um stöðu kynjajafnréttis á norðurslóðum, samantekt yfir framvindu og tilmæli frá sérfræðingahópi ráðsins um svart kolefni og metan, svo eitthvað sé nefnt. Allar áfangaskýrslur verða gerðar aðgengilegar í gegnum opna skjalavistun ráðsins.

Rússland mun, meðan á formennsku þess stendur, halda áfram að styðja við margvíslega yfirstandandi starfsemi vinnuhópa ráðsins og annarra undirstofnana þess, samhliða því að innleiða nýjar áætlanir og framtaksverkefni. Sjálfbær þróun mun verða helsta gegnumgangandi forgangsverkefnið í formennsku Rússlands og verða samfélagið, umhverfið og sjálfbær efnahagsvöxtur lykilatriði. 

„Norðurskautssvæðið er nú jafnt og þétt að festa sig í sessi innan alþjóðlegra áætlana sem svæði þar sem árangursrík samvinna fer fram. Ábyrgir stjórnunarhættir á norðurslóðum eru einungis mögulegir á grundvelli raunverulegrar samvinnu ríkja sem bera sérstaka ábyrgð á örlögum þeirra,” sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. „Það gleður mig að geta sagt að þetta samstarf er að miklu leyti mögulegt vegna starfsemi Norðurskautsráðsins. Það er von okkar að formennska Rússa muni enn frekar verða til þess að styrkja samstarf á svæðinu. Það krefst nálgunar sem er raunverulega sameiginleg til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum nú frammi fyrir á heimsskautasvæðunum.”

Fundinn sátu utanríkisráðherrar allra átta norðurskautsríkjanna ásamt leiðtogum þeirra sex samtaka sem eiga þar föst sæti, sem voru bæði á staðnum en tóku einnig þátt á netinu. Fulltrúum hinna sex vinnuhópa ráðsins og áheyrnarfulltrúum var boðið að taka þátt í gegnum fjarfundabúnað. Þetta er fyrsti fundurinn sem haldinn er augliti til auglitis á vegum Norðurskautsráðsins frá því að COVID-19 heimsfaraldurinn kom í veg fyrir slíkar samkomur snemma árs 2020.

Leiðtogar sendinefnda norðurslóðaríkjanna sem sátu fundinn voru:

  • Kanada: Marc Garneau utanríkisráðherra
  • Konungsríkið Danmörk: Jeppe Kofod utanríkisráðherra, Pele Broberg utanríkisráðherra Grænlands og Bárður á Steig Nielsen lögmaður Færeyja
  • Finnland: Pekka Haavisto utanríkisráðherra
  • Ísland: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra
  • Noregur: Ine Marie Eriksen Søreide utanríkisráðherra
  • Svíþjóð: Ann Linde utanríkisráðherra
  • Rússland: Sergei Lavrov utanríkisráðherra
  • Bandaríkin: Antony Blinken utanríkisráðherra

Leiðtogar sendinefnda samtaka frumbyggja með föst sæti í ráðinu sem sátu fundinn voru:

  • Alþjóðasamtök Aleúta: Liza Mack (í gegnum fjarfundabúnað)
  • Norðurskautsráð Atabaska: Bill Erasmus ættarhöfðingi
  • Alþjóðaráð Gwich'in-þjóðarinnar: Edward Alexander
  • Norðurskautslæg svæðissamtök Inúíta: James Stotts (í gegnum fjarfundabúnað)
  • Samtök þjóða í Rússlandi sem eiga uppruna sinn á norðurslóðum - RAIPON: Grigorii Ledkov (í gegnum fjarfundabúnað)
  • Samaráðið: Christina Henriksen

Starfsemi Norðurskautsráðsins fer fram innan hinna sex vinnuhópa þess, sem fjalla um margvísleg málefni, allt frá áhrifum loftslagsbreytinga til neyðarviðbragða til mannlega þáttarins. Vinnuhóparnir lögðu vinnu sína, úttektir og tilmæli fyrir ráðherrana í Reykjavík í dag. 

Háttsettir opinberir embættismenn sem fara með málefni norðurslóða munu halda sinn fyrsta fund í formennskutíð Rússlands í Moskvu í júní og verður hann einnig haldinn á netinu.

Hér má sjá fleiri myndir frá fundinum og öðrum fundum í tengslum við ráðherrafundinn.

Hér má finna myndbönd frá fundinum. 

 
  • Fyrsta stefnuáætlun Norðurskautsráðsins samþykkt á ráðherrafundi í Reykjavík  - mynd úr myndasafni númer 1

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta