Guðlaugur Þór ræddi mannréttindi í Rússlandi á fundi sínum með Lavrov
Viðskiptamál, tvíhliða samskipti, alþjóðamál og mannréttindi voru helstu umræðuefnin á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands í dag í Hörpu.
Sergei Lavrov kom hingað til lands í gær en hann er á meðal þeirra sem sóttu ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Reykjavík nú í morgun. Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs í Hörpu um hádegisbilið í dag voru fjölmörg málefni sem snúa að samskiptum ríkjanna og sameiginlegum hagsmunum þeirra til umræðu. Ráðherrarnir ræddu aukið frelsi í loftferðum og eflingu samstarfs á milli íslenskra og rússneskra flugrekenda. Voru þeir sammála um að skoða áfram leiðir til að auka flugsamgöngur og greiða fyrir ferðamennsku milli landanna.
Ráðherrarnir ræddu jafnframt horfur í alþjóðamálum, umhverfismál og mannréttindi. Guðlaugur Þór gerði málefni rússnesku stjórnarandstöðunnar, gagnrýnnar fjölmiðlunar og stöðu hinsegin fólks að umræðuefni og undirstrikaði mikilvægi þess að ríki stæðu við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í þessum málum. Þá ræddu ráðherrarnir átökin í Úkraínu og ítrekaði Guðlaugur Þór mótmæli Íslands við innflutningsbann Rússland á ýmsar íslenskar afurðir, sem hann sagði ekki vera í samræmi við þær refsiaðgerðir sem Ísland beitir Rússland vegna þessa.
„Rússland er mikilvægur nágranni Íslands og aðgerðir rússneskra stjórnvalda hafa áhrif á pólitískt umhverfi og öryggi í Evrópu. Þess vegna er afar mikilvægt að geta átt opinská skoðanaskipti um hin ýmsu málefni þar sem hagsmunir okkar liggja saman, en ekki síður þar sem við höfum ólíka sýn á málin,“ sagði Guðlaugur Þór, en ríkin eiga til að mynda sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi sjálfbæra nýtingu fiskistofna í norðurhöfum. Undirstrikaði Guðlaugur Þór mikilvægi reglubundins samráðs um nýtingu fiskveiðar og þess að rússnesk-íslenska fiskveiðinefndin tæki upp reglubundið samráð á ný eftir nokkurt hlé.
Tvíhliða viðskipti ríkjanna og flugsamgöngur voru einnig til umræðu, en stefnt er að því að komið verði á beinu flugi á milli landanna aftur í sumar. Þá hafa íslensk tæknifyrirtæki verið í mikilli sókn í Rússlandi um hönnun, sölu og uppsetningu og viðhaldi á tæknibúnaði og skipum til rússnesks sjávarútvegs og einnig búnaði til matvælavinnslu.