Hoppa yfir valmynd
20. maí 2021 Forsætisráðuneytið

Katrín ávarpaði ársfund Iceland SIF

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði í morgun ársfund samtakanna Iceland SIF sem eru samtök fjárfesta um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Í ávarpi sínu fór forsætisráðherra m.a. yfir áherslur ríkisstjórnarinnar í sjálfbærni- og loftslagsmálum. Ráðherra ræddi velsældaráherslur stjórnvalda og hugmyndafræði og samstarf á vettvangi WEGo velsældarhagkerfa sem byggir á nýrri, víðari efnahagslegri hugsun sem grundvallast á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með áherslu á velferð og jöfnuð.

Katrín fór einnig yfir áherslur, markmið og aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum og lagði ríka áherslu á ábyrgð og mikilvægi samvinnu við atvinnulíf og fjárfesta til þess að ná árangri á þessu sviði. Einnig vék hún að því sem framundan er, s.s. áform um græna skuldabréfaútgáfu ríkisins og innleiðingu á samræmdri upplýsingagjöf Evrópusambandsins um ófjárhagslegar upplýsingar.

„Það er mikilvægt að við drögum þann lærdóm af faraldrinum að samvinna stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og almennings skiptir öllu máli til að takast á við stórar áskoranir. Eins er mikilvægt að við byggjum ákvarðanir okkar á gögnum og vísindum þegar við tökumst á við loftslagsvána, rétt eins og faraldurinn. Og að lokum verður það ekki sagt nógu oft að árangur í efnahagsmálum hangir alltaf saman við árangur í samfélagsmálum og umhverfismálum,“ segir Katrín.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta