Guðlaugur Þór fundaði með framkvæmdastjóra UNESCO
Norðurlöndin eru einna virkust í starfi UNESCO og leggja öll mikla áherslu á samþættingu mannréttinda og jafnréttis í starfsemi stofnunarinnar. Þá stuðlar stofnunin að frelsi fjölmiðla og öryggi blaðamanna sem hefur átt undir högg að sækja á tímum heimsfaraldurs.
„UNESCO hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna í þeirri uppbyggingu sem nú fer í hönd í kjölfar heimsfaraldursins,“ sagði Guðlaugur Þór. „Víða er vegið að mannréttindum, tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna og störf UNESCO munu skipta miklu máli þegar kemur að því að sporna við þessari þróun.“
Guðlaugur Þór undirstrikaði að Íslendingar hefðu aukið framlög og starfsemi til stofnunarinnar á síðastliðnum tveimur árum, meðal annars með stuðningi við þróunarlönd vegna umbóta á sviði menntamála, fjölmiðlafrelsis og öryggis blaðamanna, meðal annars í Afganistan. Íslendingar eru nú í framboði til setu í framkvæmdastjórn UNESCO en niðurstaða mun liggja fyrir á aðlaráðstefnu stofnunarinnar í nóvember 2021.
Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu - GRÓ (Sjávarútvegskólinn, Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn og Landgræðsluskólinn) starfar nú undir merkjum UNESCO. Ísland miðlar mikilvægri sérþekkingu til þróunarlanda með starfseminni og leggur sitt af mörkum til markmiða UNESCO.