Kynning á LIFE-styrkjaáætlun ESB fyrir umhverfis- og loftslagsverkefni
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stendur fyrir kynningu á LIFE-styrkjaáætlun ESB í umhverfis-og loftslagsmálum á Nýsköpunarviku sem hófst í gær. Kynningin verður haldin á Zoom 1. júní næstkomandi kl. 13.
Ísland gerðist nýverið þátttakandi í LIFE-áætlun Evrópusambandsins sem fjármagnar verkefni á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Með því opnast möguleikar fyrir íslenska aðila til að sækja um styrki fyrir verkefni sem stuðla að vernd náttúru, auknum umhverfisgæðum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Alls eru rúmlega 5,4 milljarðar evra til úthlutunar á tímabilinu 2021 – 2027.
Einkum er horft til lítilla verkefna sem lúta að sjálfbærri framleiðslu, dreifingu og neysluvenjum m.a. með því að auka þekkingu á umhverfislöggjöf og styðja við tækniþróun. Þeir sem geta sótt um styrki eru t.d. sveitarfélög, frjáls félagasamtök og fyrirtæki.
Á viðburðinum verður áætlunin kynnt og spurningum um umsóknarferli svarað. Áhugasöm eru hvött til að skrá sig í gegn um skráningarform hér að neðan til að fá sendan Zoom-hlekk.
Nánari upplýsingar má finna á vef Stjórnarráðsins á slóðinni stjornarradid.is/life en þar verður einnig hægt að fylgjast með kynningunni í beinu streymi.