Hoppa yfir valmynd
27. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Rafrænn viðskiptafundur Íslands og Eistlands á sviði fjártækni

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Eva-Maria Liimets utanríkisráðherra Eistlands opnuðu rafrænan viðskiptafund Eistlands og Íslands sem haldinn var í gær að frumkvæði sendiráðs Íslands í Helsinki og utanríkisráðuneytis Eistlands.

Í opnunarávörpum minntust ráðherrarnir báðir á náin og góð samskipti ríkjanna, áhugann á að efla viðskiptin enn frekar og tækifærin sem í því felast. Samskonar viðburður fór fram í nóvember í fyrra þar sem áhersla var lögð á stafrænar heilbrigðislausnir á tímum COVID-19 en í gær var til umfjöllunar svonefndur fjártæknigeiri, sú grein innan fjármálageirans þar sem tækni er nýtt til endurbóta á fjármálastarfsemi.

„Á þessu sviði hafa ríki á borð við Ísland og Eistland ekki aðeins tækifæri til þess að gera vel í samanburði við stærri ríki, heldur getur smæð okkar jafnvel verið styrkleiki,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpi sínu.

Hann sagðist einnig hlakka til að taka á móti ráðherrum Eystrasaltsríkjanna í ágúst nk. til þess að fagna þrjátíu ára afmæli stjórnmálasamskipta ríkjanna þar sem mikil áhersla verður lögð á framtíðarsamstarf í viðskiptum. Liimets sagðist hlakka til að taka á móti íslenskri sendinefnd til Eistlands sem allra fyrst.

Á fundinum deildu fulltrúar beggja ríkja úr fjártæknigeirum reynslu sinni og þekkingu og ræddu nýlega þróun og framtíðarhorfur varðandi stafrænar umbreytingar í bankageiranum.

Þá kynntu Gunnlaugur Jónsson, forstjóri Fjártækniklasans og Kristo Vaher, stjórnarformaður Finance Estonia, fjártæknisenuna og tækifærin sem felast í báðum ríkjum og lýstu yfir áhuga á að efla samstarfið á þessu sviði.

Að því loknu fluttu eistnesk og íslensk fyrirtæki örkynningar á starfsemi fyrirtækjanna og lausnum sem þau hafa þróað. Eftir fundinn fóru fram tengslamyndunarviðburður þar sem fyrirtækin gátu kynnt sig og rætt beint við mögulega samstarfsaðila. Íslensku fyrirtækin Monerium, Meniga, Lucinity, PayAnalytics og Igloo tóku þátt í viðburðinum.

Gagnkvæmur áhugi er hjá Íslendingum og Eistum að fylgja eftir þessum rafrænu viðburðum með heimsókn viðskiptasendinefndar þegar aðstæður munu leyfa eftir kórónufaraldurinn.

Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við eistneska utanríkiráðuneytið, Enterprise Estonia, Finance Estonia, Íslandsstofu og Fjártækniklasann.

Upptöku af viðburðinum má sjá hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta