Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á vefráðstefnu um loftslagsmál
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í gær þátt í vefráðstefnu um loftslagsmál. Ráðstefnan var haldin á vegum norrænu sendiráðanna í London, Norrænu ráðherranefndarinnar og Chatham House í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26. Yfirskrift hennar var Addressing the Climate Emergency While Staying Competitive.
Norrænar og breskar lausnir á loftslagsvandanum voru þar í forgrunni og kynntu Landsvirkjun og CarbFix sín störf en ljóst er að grænt hugvit þarf til að ná loftslagsmarkmiðum sem sett eru fram í Parísarsáttmálanum.
Guðlaugur Þór kynnti metnaðarfull markmið Íslands í loftslagsmálum sem og helstu leiðir að settu marki, mikilvægi grænna fjárfestinga og að atvinnulífið stígi í takt við stjórnvöld í umhverfismálum.
Ráðherra sagði COP26 loftslagsráðstefnuna, sem fram fer í Glasgow í nóvember, þurfa að skila af sér skýrum og gegnsæjum reglum og lagarömmum. Mikilvægt sé að hugað sé að hagkvæmni þegar kemur að leiðum fyrir atvinnulífið að aðlaga sig að loftslagsvænum lausnum.