90 milljónum úthlutað úr Barnamenningarsjóði Íslands
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tilkynntu í Hörpu í dag um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands. Alls fengu 37 verkefni styrk og nemur heildarfjárhæð styrkjanna 90 milljónum króna en alls bárust 113 umsóknir.
Er þetta í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum sem var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.
Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknir í sjóðinn og gerði tillögu um úthlutun. Í rökstuðningi fagráðsins segir að umsóknirnar hafi borið vitni um ástríðu og hugmyndaauðgi þeirra sem sinna skapandi störfum með börnum og í þágu barna.
Yfirlit yfir styrkþega má sjá á vef Rannís.