Hoppa yfir valmynd
28. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Verklag heilbrigðisstofnana vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis verður samræmt

Drífa Jónasdóttir - mynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að láta móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur hefur verið ráðin til verksins. Ákvörðun um að móta samræmt verklag hvað þetta varðar byggist á niðurstöðum skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið  og felur í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónustan mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum.

Finnborg Salome Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræði, vann fyrrnefnda skýrslu; Heilsa og heilbrigðisþjónusta: kynja- og jafnréttissjónarmið. Þar kemur m.a. fram að ofbeldi í nánum samböndum, eða heimilisofbeldi, hefur meiriháttar afleiðingar fyrir lýðheilsu og fyrir þátttöku kvenna í samfélaginu. Ofbeldi í nánum samböndum geti leitt til áverka, krónískra sjúkdóma, örorku og dauða, en rúmlega þriðjung morða á konum í heiminum má rekja til slíks ofbeldis. Barnshafandi konur sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum eru 16% líklegri en aðrar til að missa fóstur og 41% líklegri til að eiga barn fyrir tímann. Ofbeldi í nánum samböndum getur haft alvarleg áhrif á andlega heilsu þolenda, s.s. þunglyndi, áfallastreituröskun og aðrar kvíðaraskanir. Jafnframt hefur heimilisofbeldi áhrif á heilsu og líðan barna sem alast upp við slíkar aðstæður, en þau eru í aukinni hættu á að þróa með sér raskanir auk þess að búa við skertari lífsgæði en börn sem alast ekki upp á ofbeldisheimilum.

Falinn vandi

Í skýrslu Finnborgar kemur fram að rannsóknir bendi til þess að tæplega fjórðungur kvenna á Íslandi hafi orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Ofbeldið er falið vandamál og kemur sjaldan inn á borð heilbrigðisyfirvalda. Á árunum 2005 til 2014 voru komur kvenna á Landspítala vegna ofbeldis í nánum samböndum 1,69 fyrir hverjar 1000 konur 18 ára og eldri. Rúmlega þriðjungur (37,8%) þolenda höfðu áður leitað til spítalans vegna ofbeldis í nánum samböndum. Fjöldi kvenna, með og án barna, leita til Kvennaathvarfsins árlega. Rannsóknir meðal erlendra kvenna sem leitað hafa til Kvennaathvarfsins benda til þess að þær skorti upplýsingar um rétt sinn hér á landi og að gerendur hafi jafnvel notað sér þekkingarleysi þeirra. Sterkar vísbendingar eru um að ofbeldi í nánum samböndum hafi aukist í heimsfaraldri COVID-19.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að ráðast í gerð samræmds verklags hjá heilbrigðisstofnunum vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis er í samræmi við ábendingar til úrbóta í skýrslu Finnborgar. Þar segir m.a. að leggja þurfi mat á árangur verkferla og úrræða við móttöku þolenda ofbeldis í nánum samböndum, skoða hvernig miðlun upplýsinga er háttað milli þjónustukerfa og mismunandi úrræða, auk þess sem byggja þurfi á þekkingu um valdaójafnvægi kynjanna og öðrum þáttum sem hafa áhrif á félagslega stöðu fólks og aðstæður.

Samráð við heilbrigðisstofnanir, barnavernd og lögreglu


Drífa Jónasdóttir vinnur að doktorsverkefni við læknadeild Háskóla Íslands þar sem hún leitast við að meta umfang, eðli og kostnað samfélagsins af völdum heimilisofbeldis. Hún hefur aflað sér mikillar þekkingar á málaflokknum, m.a. sem verkefnastjóri hjá Kvennaathvarfinu og sem sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands þar sem hún vinnur að umfangsmikilli rannsókn á kynbundnu ofbeldi á Íslandi. Auk þess hefur Drífa unnið ýmsar rannsóknir um þessi mál, m.a. á upplifun og líðan þolenda ofbeldis, stöðu erlendra barna í neyðarathvarfi og skýrslu um aðstæður erlendra dvalarkvenna í Kvennaathvarfinu í Reykjavík. Verkefni hennar er sem fyrr segir að móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Við þessa vinnu skal haft samráð við heilbrigðisstofnanir, barnaverndaryfirvöld og lögreglu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta