Mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu áréttað á fundi Eystrasaltsráðsins
Mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda var meginstefið í ávarpi Íslands á fjarfundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins í dag.
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, flutti ávarpið fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Þar lýsti hann ánægju Íslands með endurbætur á starfsháttum Eystrasaltsráðsins sem miða að því að gera það skilvirkara. Jafnframt lagði hann áherslu á aukið samstarf ráðsins við aðrar svæðisbundnar stofnanir. Í ávarpinu var undirstrikuð þýðing starfsemi Eystrasaltsráðsins á sviði barnaverndar, meðal annars í ljósi heimsfaraldursins en Ísland hefur um árabil verið leiðandi á því sviði innan ráðsins. Meðal annars hefur barnahúsum að íslenskri fyrirmynd víða verið komið á fót í aðildarríkjum ráðsins.
Á fundinum samþykktu utanríkisráðherrar Eystrasaltsráðsins sameiginlega yfirlýsingu þar sem mikilvægi ráðsins er áréttað. Innan þess fari fram margþætt pólitískt samráð auk hagnýtrar samvinnu ríkjanna á fjöldamörgum sviðum. Ráðherrarnir áréttuðu mikilvægi náinnar alþjóðlegrar og svæðisbundinnar samvinnu í ljósi COVID-19 faraldursins. Í yfirlýsingunni er einnig fjallað um aðgerðir til að stemma stigu við alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.
Eystrasaltsráðið var stofnað 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Pólland, Þýskaland og Rússland, auk Evrópusambandsins.