Hoppa yfir valmynd
1. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu tillögur Stoltenbergs

Frá fundi utanríkisráðherranna í dag - myndNATO

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í dag. Sterkari Atlantshafstengsl og aukið pólitískt samstarf eru leiðarstefið í drögum að tillögum sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins kynnti á fundinum. Tillögurnar verða lagðar í sinni endanlegu mynd fyrir leiðtogafund bandalagsins 14. júní nk. og er ætlað að gera bandalagið enn betur í stakk búið til að takast á við öryggisáskoranir og -ógnir á komandi árum.

„Samheldni bandalagsríkjanna er og verður lykillinn að því að bandalagið geti mætt þeim áskorunum sem staðið er frammi fyrir nú og á næstu árum. Atlantshafsbandalagið hefur tryggt frið og öryggi okkar síðustu 72 ár og ég hef fulla trú á því að tillögur Stoltenbergs verði bandalaginu til farsældar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra eftir fundinn. 

Leiðtogar bandalagsins fólu Stoltenberg á fundi í desember 2019 að vinna tillögurnar og hefur víðtækt samráð farið fram undanfarna mánuði undir merkjum NATO 2030. Tillögur Stoltenbergs byggjast jafnframt á álitsgerð vinnuhóps sérfræðinga sem kom út í desember sl. þar sem fjallað er um þær áskoranir sem bandalagið stendur frammi fyrir. 

Gert er ráð fyrir að breiðari nálgun verði boðuð í öryggismálum. Áhersla verði aukin á viðnámsþol samfélaga, áhrif loftslagsbreytinga á öryggismál og á að viðhalda tæknilegu forskoti bandalagsríkja. Horft er til þess að leiðtogarnir ákveði á fundi sínum 14. júní nk. að ráðast í endurnýjun á grunnstefnu bandalagsins, en núverandi stefna er frá árinu 2010. Þá verði áhersla aukin á stuðning við samstarfsríki í uppbyggingu öryggis þeirra og varna, og á pólitískt samráð og samstarf ríkja sem standa vörð um alþjóðakerfið og alþjóðalög. 

Framtíðarstuðningur bandalagsins við Afganistan var einnig til umræðu á fundunum í dag, málefni Rússlands og fælingar- og varnarstefna bandalagsins. Þá voru tvö stefnumótandi skjöl samþykkt, stefna gegn því að kynferðisofbeldi sé beitt sem vopni í átökum og ný netöryggisstefna.  

Síðdegis komu varnarmálaráðherrar bandalagsríkjanna saman til fjarfundar og tók Hermann Ingólfsson fastafulltrúi þátt í honum fyrir hönd Íslands. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta