Markmiðinu náð: Rúmlega 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á Íslandi
Ísland hefur náð þeim markverða árangri að markmið ársins 2020 um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum er í höfn og rúmlega það.
Þetta er fyrsta markmiðið sem stjórnvöld settu um orkuskipti í samgöngum með afgreiðslu þingsályktunar um orkuskipti fyrir 10 árum síðan. Orkuskipti, þar sem jarðefnaeldsneyti víkur fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum, eru nauðsynleg til að vinna gegn loftslagsvánni sem er ein af stærstu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Orkuskiptin leiða til orkusparnaðar, aukins orkuöryggis, gjaldeyrissparnaðar og minni losunar gróðurhúsalofttegunda.
Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum er nú um 11,4%. Sú tala endurspeglar allt endurnýjanlegt eldsneyti sem notað er á farartæki á landi, þ.m.t. rafmagn, lífdísil, metan og vetni.
Það stefnir í að rafmagn taki fram úr öðrum endurnýjanlegum orkukostum á næsta ári.
Annar helsti mælikvarði á árangri í orkuskiptum er hlutfall rafmagns- og tvinnorkubifreiða af nýskráningum. Þar er Ísland í öðru sæti á heimsvísu á eftir Noregi.
Stjórnvöld hafa unnið jafnt og þétt að þessu markmiði undanfarin tíu ár með skattalegum hvötum, beinum styrkjum til innviðauppbyggingar og söluskyldu endurnýjanlegs eldsneytis. Orkusjóður hefur tekið þátt í að efla innlenda eldsneytisframleiðslu með styrkveitingum sem og styrkt uppbyggingu á innviðum fyrir rafbíla.
Í nýrri Orkustefnu er einnig fjallað um orkuskipti, meðal annars aðallri orkuþörf verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma, Ísland sé leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu og orkuskiptum og sátt ríki um vernd náttúru og nýtingu orkuauðlinda.
Ný orkumarkmið hafa verið sett fyrir árið 2030 (40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa) og að Ísland verði alfarið óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050 (100% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa).
Nánari upplýsingar er að finna á vef Orkustofnunar