Opið samráð um evrópska stefnu um dróna
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um stefnu sína um ómönnuð loftför, eða dróna. Frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum um áætlunina er til og með 2. júlí nk.
Í stefnu sinni um snjallar samgöngur (e. Smart Mobility strategy) tilkynnti framkvæmdastjórnin áætlun um að kynna framhald stefnu sinnar um ómönnuð loftför (e. Drone strategy 2.0) á árinu 2022. Tilgangurinn var að hafa ómönnuð loftför sem hluta af stefnu sambandsins um snjallar og sjálfbærar samgöngur framtíðarinnar (e. smart and sustainable mobility of the future).
Að mati framkvæmdastjórnarinnar er nauðsynlegt að hafa sýn á heildarþróun geirans þar sem tekið yrði tillit til öryggismála, verndarmála, þjóðfélagslegra spurninga og umhverfislegra álitamála. Með þessum hætti munu drónar verða hluti af nýjum og sjálfbærum samgönguháttum. Þá verður einnig tekið tillit til atriða sem kunna að falla á milli hernaðarlegra sjónarmiða og borgaralegra.