Drög að reglugerð um sameiningu heilbrigðiseftirlitssvæða í samráðsgátt
Sveitastjórnvöld í Mosfellsbæ og Seltjarnarnessbæ hafa farið þess á leit við ráðuneytið að Heilbrigðiseftirlitssvæði Kjósarsvæðis verði lagt niður og að heilbrigðiseftirlit umræddra sveitarfélaga sameinist eftirlitssvæði Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Auk Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar er Kjósarhreppur hluti af Heilbrigðiseftirlitssvæði Kjósarsvæðis.
Ráðherra getur að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, kveðið á um sameiningu heilbrigðiseftirlitssvæða í reglugerð.
Garðabær, Kópavogsbær og Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær hafa hafið undirbúning að því að Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær bætist við heilbrigðiseftirlitssvæði Hafnarfjarðar- og Kópavogs.
Þá hafa sveitarfélögin á Vesturlandi og Kjósarhreppur hafið undirbúning að því að Kjósarhreppur bætist við heilbrigðiseftirlitssvæði Vesturlands.
Gert er ráð fyrir að sameiningu verði lokið fyrir 1. september 2021.
Umsögnum um drögin að reglugerðinni skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 22. júní næstkomandi.