Tollkvótum framvegis úthlutað með rafrænum hætti
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
„Rafræn úthlutun tollkvóta mun gjörbylta núgildandi framkvæmd við þessa úthlutun, til hagsbóta fyrir alla sem að þessu komu. Innan ráðuneytisins verður mikið hagræði en gróflega er áætlað að um tíu vinnuvikur sparist á ári samanlagt auk þess sem það mun einfalda umsóknar- og tilboðsferli fyrir umsækjendur. Þetta er í mínum huga hluti af því að minnka báknið og draga úr skriffinnsku.“
Verkefnið má rekja til tillagna starfshóps, sem skipaður var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2018, um úthlutun tollkvóta. Kerfið verður tekið í gagnið í sumar á vefnum tollkvoti.is og verður það kynnt fyrir viðeigandi aðilum í atvinnulífinu á næstu vikum.
Tollkvótar og núverandi úthlutunarferli
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar tollkvótum allt að tíu sinnum á ári á grundvelli gildandi fríverslunar- og viðskiptasamninga. Tollkvótarnir heimila innflutning á ýmsum landbúnaðarvörum án tolla eða á lægri tollum. Ferli hverrar úthlutunar tekur um fjórar til sex vikur. Núverandi ferli er umsvifamikið og tímafrekt bæði gagnvart atvinnulífi og starfsmönnum ráðuneytisins. Því fylgir mikil pappírsvinna, skjalavarsla, samskipti við tilboðsgjafa, útreikningar og ýmis nauðsynleg yfirferð gagna og útreikninga á öllum stigum. Þar sem um lokuð útboð er að ræða hefur einnig verið nauðsynlegt að fyrirtæki komi á staðinn með tilboð í lokuðum umslögum og sæki sín úthlutunarbréf.
Nýja vefkerfið mun einfalda allt úthlutunarferlið til muna og auka skilvirkni. Notendur þjónustunnar skrá sig inn í gegnum rafræn skilríki og geta þar séð allar fyrirhugaðar úthlutanir á einfaldan hátt. Vefkerfið sér einnig að mestu leyti sjálfvirkt um samskipti milli ráðuneytis og notenda, t.d. hvenær úthlutun er að hefjast, getur óskað eftir tilboðum eða látið vita um leið og niðurstöður útboðs liggja fyrir. Einnig verður hægt að fylgjast með stöðunni í hverju úthlutunarferli og hafa notendur aðgang að upplýsingum um sín fyrri tilboð og umsóknir. Vefkerfið sér um útreikninga og útbýr skjöl fyrir málaskrá ráðuneytisins. Ströngustu öryggiskröfum hefur verið fylgt við smíði kerfisins og vandað til verka enda um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar að ræða.
Möguleikar til áframhaldandi þróunar
Skatturinn vinnur einnig að rafrænni skráningu um nýtingu tollkvóta og til skoðunar er að tengja þessi tvö kerfi saman með enn meiri sjálfvirknivæðingu. Slík tenging býður upp á þann möguleika að fylgjast með nýtingu tollkvóta í rauntíma. Eftir því hefur lengi verið kallað, sérstaklega þegar erfiðleikar steðja að t.d. á tímum kórónuveirufaraldurs, vöruskorti ákveðinna vara eða rekstrarerfiðleikum búgreina. Í dag er fyrirkomulag við skráningu á nýtingu tollkvóta með þeim hætti að nýting er skráð handvirkt á bakhlið úthlutunarbréfs. Innleiðing þessarar stafrænu stjórnsýslu er talin til þess fallin að minnka hættu á villum við umsóknir, tilboðsgerð og útreikninga. Auk þess mun innleiðingin bjóða upp á meiri sveigjanleika varðandi tollkvótaúthlutanir en áður, svo sem með styttingu ferla, úthlutun minna magns í einu, oftar yfir árið, aukins fyrirsjáanleika fyrir notendur og breytingar á útboðsfyrirkomulagi.
Með stafrænni nálgun verða einnig til mun betri gögn sem má nýta til að útbúa ýmis konar gagnlegar upplýsingar á mælaborði landbúnaðarins og til að fylgjast betur með fæðuöryggi í landinu.