Hoppa yfir valmynd
9. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla til umsagnar: Þjónusta við einstaklinga með langvinna verki

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að afla upplýsinga um meðferð fyrir einstaklinga með langvinna verki hefur skilað ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum til úrbóta. Skýrslan er hér með birt til umsagnar í samráðsgátt. Á grundvelli skýrslunnar og umsagna um hana mun ráðuneytið móta áætlun um aðgerðir til næstu ára til að hrinda úrbótum í framkvæmd. Liður í verkefni starfshópsins var að greina fjölda, aldur og kyn þeirra sem eiga við langvinna verki að stríða, auk þess að kortleggja þá meðferð sem stendur til boða og hvar hún er veitt. 

Fimmti hver fullorðinn glímir við langvinna verki

Verkir eru skilgreindir langvinnir hafi þeir varað í a.m.k. þrjá mánuði eða lengur. Almennt er talið að fimmti hver fullorðinn einstaklingur glími við langvinna verki. Ýmsir undirliggjandi sjúkdómar eru þekkt orsök langvinnra verkja en algengast er að orsakirnar séu óljósar. Algengastir eru verkir í stoðkerfi og af sjúklingum með stoðkerfisverki stríðir um helmingur þeirra við bakverki. Miðað við fyrirliggjandi rannsóknir má ætla að hið minnsta 56.000 einstaklingar hér á landi séu með langvinna verki og ætla má að um þriðjungur þeirra sé óvinnufær segir í skýrslu starfshópsins. Þar kemur fram að verkir séu alla jafna algengari hjá konum en körlum, sem skýrist að hluta til af því að konur eru í aukinni áhættu á ýmsum langvinnum verkjavanda, s.s. vefjagigt, mígreni og slitgigt. Bent er á að tíðni almennra, langvinnra verkja hækki með aldri en nái jafnvægi um miðjan aldur. Þá séu ákveðin verkjavandamál sem nái hámarki hjá fólki um miðjan aldur en síðan dragi úr tíðni þeirra.

Í meðfylgjandi skýrslu starfshópsins er birt yfirlit yfir þau meðferðarúrræði sem í boði eru fyrir fólk með langvinna verki, hvar þau eru, hvaða fagfólk kemur að meðferðinni og hvaða sjúklingahópum er sinnt á hverjum stað. 

Tillögur um bætta þjónustu

Starfshópurinn telur að auka þurfi kennslu í grunngreinum heilbrigðisvísinda á sviði verkjameðferðar og auka þjálfun á þessu sviði í klínísku námi. Einnig þurfi að bæta fræðslu fyrir almenning. Þá sé mikilvægt að auka fræðslu um notkun sterkra verkjalyfja og vinna markvisst að skynsamlegri notkun þeirra. Fyrir liggur að flestir með langvinna verki leita fyrst til heilsugæslunnar. Að mati meiri hluta starfshópsins er mögulegt að nýta væntanleg þverfagleg endurhæfingarteymi í heilsugæslunni til að miðla þekkingu og þróa aðgengilega þjónustu fyrir þá sem eru með langvinna verki. Hópurinn birtir enn fremur yfirlitsmynd í skýrslunni þar sem dregið er upp hvernig hann telur að framtíðarskipulagi heilbrigðisþjónustu vegna langvinnra verkja sé best fyrir komið. Er þar tekið mið af skiptingu heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta