Náið samstarf skóla og atvinnulífs innsiglað
Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Iðunnar fræðsluseturs og RAFMENNT hafa undirritað samkomulag vegna breytinga á vinnustaðanámi. Breytingarnar eru tilgreindar í nýrri reglugerð mennta- og menningarmálaráðherra, en þar er áréttuð ábyrgð framhaldsskólanna á vinnustaðanámi og opnað á hæfnimat í starfsþjálfun. Markmið reglugerðarinnar er að efla iðn- og verknám, fjölga nemendum og veita þeim og fyrirtækjunum betri þjónustu. Athöfnin fór fram í húsnæði vélsmiðjunnar Héðins í Hafnarfirði, að viðstöddum hópi fólks sem hefur tekið þátt í undirbúningnum.
Með undirritun samkomulagsins taka fræðslumiðstöðvar stærstu iðngreinanna að sér þjónustu við bæði atvinnulíf og skóla. RAFMENNT og Iðan munu aðstoða framhaldsskóla við að finna pláss hjá vinnustöðum. Iðan og Rafmennt munu jafnframt hvetja fyrirtæki með markvissum hætti til að taka nema í vinnustaðanám og aðstoða þau við skipulagningu námsins. Þá munu félögin koma að eftirliti um að fyrirtæki uppfylli sett skilyrði.
Margrét Halldóra Arnarsdóttir stjórnarformaður RAFMENNT, Páll Magnússon ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Jóhanna Klara Stefánsdóttir stjórnarformaður Iðunnar skrifuðu undir samkomulagið. Þau segja að samstarfið marki tímamót, þar sem yfirvöld, skólar og atvinnulíf taki höndum saman um að bæta þjónustu við nemendur og stuðla að aukinni skilvirkni og gæðum námsins. Þetta sé eitt skrefið af mörgum sem tekin hafi verið til að auka veg og virðingu verklegs náms í landinu. Í ljósi stóraukinnar aðsóknar í starfsnám megi ætla að vel hafi tekist til í þeirri vinnu.