Hoppa yfir valmynd
11. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samstarf um að skoða framleiðslu á rafeldsneyti á Grundartanga

Benedikt Stefánsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá CRI, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi og Ólafur Adolfsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga. - myndBG

Landsvirkjun, Carbon Recycling International, Elkem á Íslandi og Þróunarfélag Grundartanga áforma samstarf um skoðun á framleiðslu á grænu metanóli. Framleiðslan myndi nýta endurnýjanlega raforku Landsvirkjunar, framleiðslutækni Carbon Recycling International og glatvarma ásamt koldíoxíði sem fangað yrði úr kísilveri Elkem á Grundartanga.

 

Slík framleiðsla yrði í anda þeirrar undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið að undanförnu af Þróunarfélagi Grundartanga og samstarfsaðilum með stuðningi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, þar sem horft er sérstaklega til þess að nýta orku- og efnisstrauma á nýjan hátt til að auka sjálfbærni, draga úr loftslagsáhrifum og skapa ný verðmæti.

 

Útlit er fyrir að rafeldsneyti á borð við grænt metanól verði lykilþáttur í orkuskiptum sem fram undan eru, í samræmi við markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Metanól hentar bæði í iðnað og til að knýja fjölbreytt samgöngutæki, en stóran hluta þeirrar losunar sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að minnka má rekja til samgangna. Nágrannalönd Íslands hafa einnig metnaðarfull markmið um að skipta út jarðefnaeldsneyti, sem gæti skapað tækifæri á útflutningi íslensks rafeldsneytis.

 

 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Benedikt Stefánsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Carbon Recycling International, Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi og Ólafur Adolfsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga, undirrituðu samning um samstarfið í dag, ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

 

 

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Ég fagna þessu samkomulagi sem endurspeglar tækifæri Grundartanga til að vera í fararbroddi í hagnýtingu nýrra grænna lausna. Ég trúi að samstarf þessara öflugu aðila gæti átt eftir að reynast mikilvægt skref í átt að takmarki okkar um jarðefnaeldsneytislaust Ísland og verðmætasköpun á þeim grunni.“

 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Framleiðsla á grænu rafeldsneyti eins og metanóli er spennandi tækifæri fyrir Ísland. Það er sérstaklega ánægjulegt að vinna að skoðun þessa verkefnis með viðskiptavini okkar til áratuga, Elkem á Íslandi, Carbon Recycling International sem eru leiðandi á sínu sviði alþjóðlega og Þróunarfélagi Grundartanga sem hefur unnið ötullega að því að þróa starfsemi og uppbyggingu á Grundartanga.“

 

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi:

„Elkem á Ísland hefur unnið að því að skoða nýtingu á koldíoxíði og hita frá verksmiðjunni á Grundartanga. Tækifærin eru gríðarleg. Annars vegar er möguleiki á fjölbreyttri nýsköpun í atvinnulífi í tengslum við föngun koldíoxíðs og orkunýtingu og hins vegar eru tækifæri til að draga verulegu úr heildarkolefnisspori svæðisins sem og okkar Íslendinga allra. Þetta er metnaðarfullt framtíðarverkefni sem við hjá Elkem á Íslandi erum mjög áhugasöm um en vinnst ekki nema í samstarfi ólíkra aðila og öflugrar fyrirtækja.“

 

Benedikt Stefánsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Carbon Recycling International:

„Carbon Recycling International hefur rutt brautina í tækniþróun og framleiðslu græns rafeldsneytis. Möguleikar til þess að ná aukinni stærðarhagkvæmni eru  óvíða betri hér á landi en á Grundartanga. Með hagkvæmri framleiðslu á grænu metanóli getum við lagt grunn að orkuskiptum í landflutningum og sjávarútvegi, aflað aukinna útflutningstekna og nýtt nýja orkukosti í núverandi flutningskerfi. Þessi athugun er mikilvægt skref í ferli sem vonandi leiðir til fjármögnunar og framkvæmdar. Er okkur því mikil ánægja að ganga til samstarfs við Landsvirkjun, Elkem og Þróunarfélagið.“

 

Ólafur Adolfsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga:

„Þróunarfélagið Grundartanga hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að skoða tækifæri til að nýta betur efnis- og auðlindastrauma frá iðnaðarsvæðinu á Grundartanga ásamt því að draga úr kolefnisfótspori svæðisins. Það er mat Þróunarfélagsins að mikil tækifæri felist  í framleiðslu á grænu rafeldsneyti á Grundartanga og lykillinn að því er að ná saman öflugustu fyrirtækjum landsins á þessu sviði til verkefnisins.  Ég tel að stórt skref í þá átt sé stigið í dag með undirritun samstarfssamnings Elkem, Landsvirkjunar, CRI og þróunarfélagsins Grundartanga um framleiðslu rafeldsneytis.  Ef vel tekst til mun verkefnið verða mikilvægt skref í orkusjálfstæði landsins, ásamt því að stuðla að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og nái yfirlýstum markmiðum sínum í loftslagsmálum.“

 

Það tekur tíma að byggja upp nauðsynlega innviði til framleiðslu á rafeldsneyti eins og grænu metanóli á Íslandi til að hægt verði að mæta eftirspurn næstu ára og áratuga. Því er mikilvægt að hefjast handa strax við að útfæra hvernig slík framleiðsla muni fara fram. Niðurstöður þess samstarfs sem kynnt er í dag munu verða mikilvægt innlegg sem vonandi treystir grunn að næstu skrefum að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta