Svanni úthlutar lánum til fjögurra frumkvöðlafyrirtækja
Fjögur verkefni fengu lán frá Svanna - lánatryggingasjóði kvenna í vorúthlutun sjóðsins; Fæðingarheimili Reykjavíkur, Justikal, Eylíf og FÓLK. Forsvarskonur þessara ólíku og áhugaverðu fyrirtækja eru á einu máli um það að liðsinni Svanna sé þeim afar mikilvægt og gerir fyrirtækjunum kleift að vaxa og dafna.
Svanni hefur það að markmiði að efla konur í fyrirtækjarekstri og auka aðgengi þeirra að fjármagni til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Sjóðurinn er í eigu forsætisráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Hann á í góðu samstarfi við Landsbankann sem veitir lánin en bankinn hefur verið bakhjarl sjóðsins frá stofnun hans.
Í vor bárust sjóðnum 12 umsóknir og alls var sótt um lán að fjárhæð rúmlega 84 milljónir króna.
FÓLK
Ragna Sara Jónsdóttir er eigandi Fólks, sem er íslenskt hönnunarmerki sem þróar, markaðssetur og selur hönnun eftir íslenska hönnuði. „Lánið hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir okkur en fyrirtæki eins og okkar sem stundar vöruþróun, oft og tíðum með nýjum aðferðum og hráefnum, þarf fjármagn til að koma undir sig fótunum. Það er mjög jákvætt og mikilvæg traustsyfirlýsing að Landsbankinn og Svanni séu tilbúin að styðja okkur í að byggja upp vörur sem taka útgangspunkt í sjálfbærni og hringrás hráefna.“
Justikal
Hugbúnaðarfyrirtækið Justikal hannar lausn sem gerir dómstólum og öðrum opinberum aðilum kleift að taka á móti, sannreyna og varðveita m.a. rafrænt undirrituð gögn á rafrænu formi og er Margrét Anna Einarsdóttir stofnandi fyrirtækisins. „Samþykkt lánsins er viðurkenning á hugmyndinni og viðskiptalegum markmiðum félagsins. Frumkvöðlar þurfa að leggja á sig gífurlega mikla vinnu til að byggja eitthvað frá grunni. Þess vegna er það mjög mikilvægt að sjóðir eins og Svanni, sem geta stutt félögin á mikilvægum tímum, séu starfræktir.“
IceCare Health ehf.
Ólöf Rún Tryggvadóttir er stofnandi og eigandi iceCare Health ehf., sem þróar, framleiðir og selur heilsuvörur. „Lánveiting Svanna hefur mjög mikla þýðingu því að þá fyrirtækið tekið á sig aukakostnað við vöruþróun án þess að vera á yfirdrætti. Ekki þarf þá heldur að bíða með ýmsar prófanir á efnum. Það léttir á öllu ferlinu við vöruþróun fyrirtækisins.“
Fæðingarheimili Reykjavíkur
Embla Ýr Guðmundsdóttir og Emma Marie Swift stofnuðu nýverið Fæðingarheimili Reykjavíkur. „Lánið frá Svanna gerir okkur það mögulegt að standsetja húsnæði sérsniðið að þörfum Fæðingarheimilisins. Þannig getum við hafið rekstur umtalsvert hraðar en ella og látið drauminn um Fæðingarheimilið rætast.“
Svanni veitir lán með lánatryggingum til fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna sem þýðir að ekki þarf að leggja fram veð fyrir lánum. Sjóðurinn er liður í viðleitni stjórnvalda til að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar. Enn fremur sýna rannsóknir að konur eru varkárari til að taka lán og veðsetja eigur sínar og hefur það staðið vexti fyrirtækja í eigu kvenna fyrir þrifum að einhverju leyti. Svanni hefur framkvæmt könnun hjá lánþegum sjóðsins og þar kemur skýrt fram í gegnum árin að margir lánþegar telja sig ekki hafa sama aðgang að fjármagni annars staðar. Einnig hefur lánatrygging Svanna skipt miklu máli við að koma hugmyndum í verk og lánin geta skipt sköpum fyrir minni fyrirtæki. Verkefnin sem lánað er fyrir skila verðmætaaukningu inn í atvinnulífið og stuðla að aukinni atvinnusköpun. Umsóknarfrestur vegna lána sem verða veitt í haust er til 15. september næstkomandi og er sótt um rafrænt á heimasíðu sjóðsins, www.atvinnumalkvenna.is, en þar má finna frekari upplýsingar um lánin.
Úthlutun lána fer fram tvisvar á ári og er hægt að fá lán á bilinu þrjár til tíu milljónir króna og eru lánin alla jafna til 5 ára.