Katrín ávarpaði ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna um landgræðslumál
Ráðherrafundur um landgræðslumál fer fram í dag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði fundinn á myndbandi ásamt stórum hópi annarra leiðtoga og ráðherra hvaðanæva úr heiminum.
Í ávarpinu gerði Katrín grein fyrir verkefnum á sviði landgræðslu á Íslandi og þeirri miklu áherslu sem stjórnvöld leggja á málaflokkinn. Skógrækt, endurheimt vistkerfa og votlenda væru ásamt kolefnisförgun mikilvægir þættir í því markmiði íslenskra stjórnvalda að ná fram kolefnishlutleysi ekki seinna en árið 2040. Þá hafi Ísland lagt sitt af mörkum með Landgræðsluskólanum sem starfræktur er á Íslandi undir hatti UNESCO.
Katrín lagði einnig áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu í baráttunni gegn landeyðingu. Ef árangur náist í átt að hlutleysi varðandi landhnignun, sem er mikilvægur þáttur heimsmarkmiðanna, færumst við um leið nær því að útrýma fátækt og hungri í heiminum.
Fundurinn var skipulagður af forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og fjöldi hátt settra embættismanna innan Sameinuðu þjóðanna tekur þátt, auk vísindamanna og fulltrúa frjálsra félagasamtaka sem og aðildarríkjanna.
Ísland hefur frá árinu 2013, ásamt Namibíu, verið í forystu fyrir ríkjasamstarfi um málaflokkinn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York en ríkin tvö eru stofnendur og stjórnendur svokallaðs vinahóps um landgræðslumál en í honum eru 23 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Starfsfólk Eyðimerkursamnings SÞ styður við starf hópsins.