Tæknisetur formlega stofnað: Þórdís Kolbrún skipaði stjórn
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fundaði með stjórn Tækniseturs á fyrsta fundi stjórnar en undirbúningur við stofnun Tækniseturs gengur vel.
Á fundinum tók stjórnin formlega við þeim verkefnum sem undirbúningshópur hefur unnið að á síðustu mánuðum. Tæknisetur hefur nú verið formlega stofnað og eitt fyrsta verkefni nýrrar stjórnar er ráðning starfsfólks og stefnumótun og skipulag starfseminnar á næstu árum.
Tæknisetur verður rekið sem óhagnaðardrifið félag sem á ekki í samkeppni við einkafyrirtæki og stofnanir og verður alfarið í eigu ríkisins, þar sem ríkið leggur fram hluta af tækjabúnaði og eignum Nýsköpunarmiðstöðvar sem stofnframlag. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun leggja félaginu til árlegt fjárframlag gegnum þjónustusamninga. Tæknisetri sé ætlað að vera brú milli háskólasamfélags og atvinnulífs á sviði tæknigreina og liður í uppbyggingu þekkingarþorps í Vatnsmýrinni.
Stjórn Tækniseturs skipa
- Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, fjárfestingastjóri hjá Brunni Ventures og frumkvöðull, stjórnarformaður
- Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands
- Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
- Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
- Þór Sigfússon, stjórnarformaður Sjávarklasans
- Varamenn eru þau Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir verkefnisstjóri á Vísinda- og nýsköpunarsviði Háskóla Íslands og Alexander Jóhönnuson frumkvöðull
- Svafa Grönfeldt prófessor við Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Boston, verður Tæknisetri til ráðgjafar um alþjóðlegt samstarf
Hér má finna heimasíðu Tækniseturs: www.taeknisetur.is