Alþingi samþykkir frumvarp um hringrásarhagkerfi
Alþingi samþykkti um helgina frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem felur í sér innleiðingu Evróputilskipana sem skapa eiga skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis.
Markmiðið með hringrásarhagkerfi er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Þannig eru fullnægjandi úrgangsforvarnir og úrgangsstjórnun mikilvægur hluti þess sem þarf að vera til staðar í virku hringrásarhagkerfi.
Meiri flokkun, minni urðun og aukin ábyrgð framleiðenda
Lögin skylda heimili og fyrirtæki til flokkunar á heimilisúrgangi og sveitarfélögin til sérstakrar söfnunar á fleiri úrgangstegundum en verið hefur, svo sem lífrænum úrgangi, textíl og spilliefnum. Með því að samræma merkingar á landsvísu verður fólki gert auðveldara fyrir að flokka með sama hætti, sama hvar það er statt á landinu. Þá verður einnig skylda að flokka byggingar- og niðurrifsúrgang og annan rekstrarúrgang. Óheimilt verður að urða eða brenna úrgang sem flokkaður hefur verið og safnað sérstaklega.
Tekið verður upp nýtt kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs sem miðar að því að hver og einn borgi fyrir það magn sem hent er og að rukka megi minna fyrir úrgang sem er flokkaður. Með þessari breytingu er ætlunin að beita mengunarbótareglunni í meira mæli við úrgangsstjórnun en verið hefur, það er að segja að því meira sem fólk flokkar og því minna sem það hendir, því minna borgar það.
Lögin kveða enn fremur á um framlengda framleiðendaábyrgð fyrir allar umbúðir, ýmsar plastvörur og veiðarfæri sem innihalda plast. Framleiðendaábyrgðin felur í sér að framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á vöru þegar hún er orðin að úrgangi. Þannig standa þeir t.d. straum af kostnaði við söfnun og meðhöndlun úrgangsins. Úrvinnslugjald er lagt á vöruna til að standa undir þessum kostnaði og sér Úrvinnslusjóður um þá framkvæmd.
Lögin kveða nú skýrar á um að markmið með framlengdri framleiðendaábyrgð sé að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu og þegar sköpuð eru hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs beri ekki síður að hafa hliðsjón af umhverfislegum ávinningi en hagrænum, t.d. minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Þá hækkar skilagjald sem endurgreitt er við afhendingu á ökutækjum til móttökustöðvar til úrvinnslu úr 20.000 kr. í 30.000 kr. Tilgangurinn er að auka hvata til að skila úr sér gengnum ökutækjum til viðurkenndrar úrvinnslu.
Með lögunum eru gerðar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Lögin taka að mestu leyti gildi 1. janúar 2023.
„Innleiðing hringrásarhagkerfisins er eitt af stóru áherslumálunum mínum.“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með þessum lagabreytingum er þjónusta við almenning aukin og fólki gert auðveldara fyrir að flokka betur og gera það með sama hætti alls staðar á landinu. Við drögum úr urðun, sem er stórt loftslagsmál og gerum gjaldtöku sanngjarnari með því að þau sem henda minna og flokka meira verða látin borga minna. Ég bind miklar vonir við að lögin leiði til þess að við náum markmiðum okkar í úrgangsmálum á næstu árum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.