Ráðherra ræðir langa reynslu Íslands í baráttunni gegn eyðingu gróðurs
Guðmundur Ingi Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók í dag þátt í málþingi á vegum Samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD).
17. júní er alþjóðadagur helgaður baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og ofþurrki. Gestgjafi málþingsins, sem var haldið með rafrænum hætti, var forseti Costa Rica H. E. Carlos Alvarado. Umfjöllunarefnið var endurheimt vistkerfa og hvernig vekja megi almenna vitund um þörfina fyrir að koma á jafnvægi milli manns og náttúru.
Eyðimerkursamningurinn, eins og hann er oft nefndur hér á landi, er einn af þremur samningum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál. Hinir eru rammasamningur um aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og samningur um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Ísland er aðili að öllum þessum þremur samningum.
Í máli sínu vakti ráðherra athygli á langri reynslu Íslands í baráttunni gegn eyðingu gróðurs og jarðvegs. Guðmundur Ingi fór þannig yfir 100 ára sögu landgræðslu og endurheimtar á Íslandi og hvernig tekist hefði að snúa vörn í sókn þannig að nú færi fram umtalsverð endurheimt vistkerfa með landgræðslu og skógrækt á löskuðu og eyddu landi. Íslandi hefði orðið fyrir mestu jarðvegseyðingu í Evrópu og búi nú að dýrmætri reynslu eftir langa baráttu. Sú reynsla geti nýst víða, m.a. í áherslum Íslands í þróunarsamvinnu, þótt aðstæður á öðrum stöðum séu ólíkar því sem gerist á Íslandi.
Meðal þess sem læra megi af reynslu Íslendinga sé að byggja endurheimt vistkerfa á vísindalegri þekkingu og staðbundinni þátttöku fólks og þannig virkja samfélagið til góðra verka á þessu sviði. „Kannski er mikilvægasti lærdómurinn sá að við sjáum hér á Íslandi að endurheimt vistkerfa er möguleg og skilar margvíslegum ávinningi, hvort sem horft er til loftslagsmála, líffræðilegrar fjölbreytni eða baráttunnar gegn hnignun lands. Það eru skilaboðin sem við getum gefið út í umheiminn og þeim skilaboðum fylgir von“ sagði Guðmundur Ingi.