Forsætisráðherra hélt ávarp í tilefni af útgáfu loftlagsvegvísis atvinnulífsins
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hélt í dag ávarp í tilefni af útgáfu loftslagsvegvísis atvinnulífsins sem nú er gefinn út í fyrsta sinn. Vegvísirinn er unnin undir forystu Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagmálum í samvinnu við Samorku, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands.
Tilgangur vegvísisins er að skilgreina stöðu loftslagsmála í hverri atvinnugrein, móta stefnu og tillögur til úrbóta.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráherra:
„Það er afar þýðingarmikið að fá svo breiða þátttöku frá atvinnulífinu í þessari vinnu því loftslagsmálin eru ekki afmarkað verkefni ákveðinna geira heldur snerta öll svið samfélagsins. Útgáfan nú er fyrsta skrefið í þessari sameiginlegu vegferð atvinnulífsins í loftslagsmálum sem getur stutt vel við aðgerðaráætlun stjórnvalda. Mikilvægt er að við byggjum áfram á þessari góðu vinnu og höldum áfram í næsta áfanga með því að setja niður skýr markmið, aðgerðir og mælikvarða sem tryggja að við náum settu marki."