Hoppa yfir valmynd
23. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Jákvæð alþjóðasamvinna

Ég heyri stundum haft á orði að utanríkismálin séu fjarlægur veruleiki þorra almennings og áhugi á alþjóðasamstarfi almennt lítill. Þetta viðhorf virðist byggt á misskilningi. Niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar sem Maskína vann fyrir utanríkisráðuneytið sýna að Íslendingar hafa bæði áhuga og þekkingu á alþjóðamálum og telja að hagsæld þjóðarinnar byggist að verulegu leyti á alþjóðlegri samvinnu.

Það er eftirtektarvert að þrír af hverjum fjórum álíta að alþjóðleg viðskipti séu undirstaða hagsældar Íslands. Ég hef lagt sérstaka áherslu á utanríkisviðskipti í ráðherratíð minni og þessi niðurstaða er því okkur brýning að halda áfram á sömu braut við að greiða götu íslenskra fyrirtækja erlendis. Það er okkar allra hagur.

Almennt má segja að eftir því sem þekking fólks er meiri reynast viðhorfin jákvæðari og þau sem lýsa yfir mestri þekkingu á alþjóðasamstarfi eru líka jákvæðust. Þess vegna er það okkur hvatning til að efla enn frekar kynningarstarfið á verkefnum utanríkisþjónustunnar og sporna þannig við tortryggni sem vanþekking elur af sér.

Sem fyrr nýtur norræn samvinna mikillar velvildar þjóðarinnar, tæp 90 prósent eru jákvæð gagnvart virkri þátttöku í Norðurlandasamstarfi. 75 prósent eru jákvæð í garð aðildar að Sameinuðu þjóðunum og 70 prósent Norðurskautsráðinu. Þá fjölgar þeim á milli ára sem eru jákvæð gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin.

Það er svo sérstakt ánægjuefni að tvöfalt fleiri þekkja nú til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en í sambærilegri könnun fyrir ári og þorri aðspurða segist myndu leita til hennar er vandi kæmi upp á erlendri grundu. Borgaraþjónustan sannaði gildi sitt svo um munaði í kórónuveirufaraldrinum þegar þúsundir Íslendinga nutu aðstoðar hennar við að komast heim á óvissutímum. Niðurstöður könnunarinnar staðfesta mikilvægi borgaraþjónustunnar í huga almennings.

Í heildina getum við í utanríkisráðuneytinu vel við unað. Umfram allt erum við samt þakklát fyrir það traust sem Íslendingar sýna okkur við að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta