Hoppa yfir valmynd
24. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisþjónustan eflir kynningu á íslenskri myndlist erlendis

 Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, við undirritunina í dag. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, undirrituðu í dag samstarfssamning um kynningu á íslenskri myndlist erlendis. Samningurinn er liður í því að efla menningarstarf á erlendri grundu og vekja athygli á íslenskri myndlist og menningararfi. 

Kynning á íslenskri menningu erlendis er á meðal mikilvægustu verkefna utanríkisþjónustunnar að sögn Guðlaugs Þórs. Þar leika sendiskrifstofurnar lykilhlutverk sem kynningar- og markaðsstofur Íslands og festir samningurinn það hlutverk enn frekar í sessi.

„Það er mikil gróska í íslenskri myndlist og listamenn okkar vekja verðskuldaða athygli um allan heim. Við bindum miklar vonir við þetta aukna samstarf við Listasafn Íslands og það er dýrmætt að fá aðgang að allri þeirri reynslu og fagþekkingu sem þar er til staðar. Það er augljóslega hagur okkar að vinna saman að þessu mikilvæga verkefni,“ sagði Guðlaugur Þór við undirritun samningsins. 

Utanríkisráðuneytið og Listasafnið hafa starfað saman um áratugaskeið en með samningnum er lagður grundvöllur að auknu og markvissara samstarfi. Að sögn Hörpu markar samningurinn upphaf nýrra tíma í samstarfinu. 

,,Ég er ánægð með að safneign þjóðarinnar sem Listasafn Íslands varðveitir, sýnir og miðlar með ýmsum hætti hafi þetta hlutverk auk hefðbundins sýningarstarfs. Nú verða sett fram ýmis markmið og sérverkefnum hrundið í framkvæmd til að kynna íslenska myndlist með virkum hætti utan landsteinanna og það eflir auðvitað starfsemi safnsins um leið. Myndlistin verður í öndvegi og ég er ánægð með þessa áherslu utanríkisþjónustunnar,“ sagði Harpa.

Samkvæmt samningnum mun Listasafnið að jafnaði leggja til um 100-150 verk úr safneign sinni sem verða til sýnis á sendiskrifstofum Íslands. Verkin verða valin með faglegum hætti og mun Listasafnið vinna áætlun um áherslur á hverjum stað, m.a. með tilliti til markaðssvæðis og tengsla verkanna eða listamannsins við viðkomandi ríki. Utanríkisráðuneytið leggur til sýningarrými fyrir listaverkin á sendiskrifstofum og bústöðum og mun standa fyrir kynningu á verkunum í samstarfi við Listasafnið og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.   

Utanríkisþjónustan, Íslandsstofa og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hafa að undanförnu unnið náið saman að því að kynna íslenska myndlist erlendis og fundið til þess nýstárlegar leiðir á tímum heimsfaraldursins, m.a. með framleiðslu og dreifingu á rafrænu kynningarefni. Þessi samningur við Listasafnið mun styrkja enn frekar þetta mikilvæga samstarf.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta