Loftslagsverkefni í nautgriparækt
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað samning um að efla og stækka loftslagsverkefni í landbúnaði á árinu 2021, einkum í nautgriparækt. Samningurinn felur í sér tvö verkefni sem unnin verða á árinu 2021 og eru hluti af aðgerðum tengdum landbúnaði í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum. Annars vegar er um að ræða stækkun og eflingu á verkefninu Loftlagsvænn landbúnaður og hins vegar framkvæmd á könnun á geymslurými búfjáráburðar. Að samningnum koma atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Landgræðslan og Skógræktin.
Verkefnið Loftlagsvænn landbúnaður verður aðlagað að nautgriparækt og 15 nautgripabú tekin inn í það á árinu 2021. Samhliða fjallar samningurinn um eflingu og aukningu faglegs starfs innan þess. Verkefnið byggir á samstarfi Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og er meginmarkmið þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri miðað við þá möguleika sem best henta á hverju búi fyrir sig. Stækkun þess byggir á gildandi samningi um framkvæmd sem undirritaður var í mars 2020 og gildir til ársloka 2024
Þá verður einnig framkvæmt stöðumat á geymslugetu og gerð hauggeymslna á nautgripabúum. Verkefnið er liður í því að greina möguleika til bættar nýtingar búfjáráburðar og þar með minnka notkun tilbúins áburðar og draga úr loftslagsáhrifum með því. Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um núverandi stöðu á geymslurými á nautgripabúum. Með slíkri upplýsingaöflun verður fært að fylgjast með þróun í þessum málum og mæla bættan árangur.