Breytingar á aðalnámsskrá leikskóla
Breytingar sem miða að því að mæta betur þörfum barna með annað móðurmál en íslensku og öðrum fjöltyngdum börnum í leikskólum hafa nú verið kynntar helstu hagsmunaaðilum. Fjölmenni var á rafrænum kynningarfundi ráðuneytisins um málið þriðjudaginn 29. júní en hann sóttu meðal annars leikskólakennarar, leikskólastjórar, fræðslustjórar sveitarfélaga og foreldrar ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtakanna Móðurmál og háskólanna.
Um er að ræða breytingar þar sem aukin áhersla er lögð á mikilvægi þess að mæta beri hverju og einu barni út frá menningarbakgrunni þeirra og að námsumhverfi skóla henti öllum börnum sem þar stunda leik og nám. Þá er áréttuð nauðsyn þess að gagnkvæmur skilningur ríki milli foreldra og starfsfólks leikskóla á samspili náms og vellíðunar barna. Þá bætist við vísun til þess að í leikskólum skuli leggja grunn að íslenskunámi barna og veita þeim ríkuleg tækifæri til að efla tungumálafærni sína í daglegu starfi og leik, og að bera skuli virðingu fyrir fjölbreyttum tungumálum og leita leiða til að styðja við móðurmál barna og virkt fjöltyngi í daglegu starfi.
Tillaga að fyrrgreindum breytingum var unnin í víðu samráði við hagsmunaaðila og birt í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar sl. Uppfærð gerð aðalnámskrár leikskóla verður birt í Stjórnartíðindum og á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins á næstu dögum.
Glærukynningu fundarins má nálgast hér.
Uppfært 18.11.22 kl. 14:15