Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Einkunn Íslands fyrir netöryggi hækkar talsvert í úttekt Alþjóðafjarskiptasambandsins

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) hefur hækkað einkunn Íslands fyrir netöryggi í nýútgefnum netöryggisvísi (Global Cyber Security Index) fyrir árið 2020, en niðurstöðurnar eru kynntar í úttekt sambandsins um stöðu netöryggis sem birt var í vikunni. Ísland fær nú 79,81% mögulegra stiga en fékk 44,9% í síðustu úttekt, 2018. Á netöryggisvísinum eru gefnar einkunnir í fimm flokkum.

Nær öll lönd hafa lagt mikla áherslu á netöryggi á undanförnum árum, þannig að flest önnur lönd hafa einnig bætt stöðu sína verulega. Ísland situr nú í 58. sæti á lista 167 þjóða en var í 87. sæti á sama lista árið 2018. Ísland er í 31. sæti meðal Evrópuþjóða en var síðast í 42. sæti. Vegna örrar þróunar í netöryggismálum hefði kyrrstaða hérlendis þýtt í reynd að Ísland hefði dregist aftur úr öðrum ríkjum. 

Hærri einkunn má m.a. þakka markvissum aðgerðum stjórnvalda á kjörtímabilinu í því skyni að styrkja lagaumgjörð, efla eftirlit með netöryggismálum og bæta umgjörð þeirra og skipulag. Ný heildarlög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða tóku gildi í september 2020 og eru fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Með þeim var hlutverk Netöryggisráðs eflt sem samstarfsvettvangur um net- og upplýsingaöryggi og starf sérstakrar Netöryggissveitar styrkt enn frekar á vegum Fjarskiptastofu. Hlutverk netöryggissveitarinnar er að fyrirbyggja og draga úr hættu á netárásum og öðrum öryggisatvikum.

„Við fögnum þeim áfanga að hafa bætt stöðu Íslands á lista Alþjóðafjarskiptasambandsins. Niðurstöðurnar staðfesta að mikilvæg skref hafa verið stigin til að bæta netöryggi á Íslandi, einkum hvað varðar löggjöf og eftirlit stofnana. Við ætlum að halda áfram að bæta okkur og þar af leiðandi enn hærri einkunn og betri stöðu á listanum. Stjórnvöld munu með stefnumótun og tryggri umgjörð halda áfram að leiða farsælt samstarf stofnana, fyrirtækja og einstaklinga um að efla netöryggi til þess að við getum nýtt stafræna umbyltingu okkur til framfara og um leið skapað spennandi atvinnutækifæri á sviði netöryggis,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Einkunn í fimm flokkum

Úttekt ITU byggist á eftirfarandi fimm flokkum. Hér að neðan er hlutfallsleg einkunn Íslands í hverjum flokki:

  • Lagalegt umhverfi (e. Legal Measures) 89%
  • Tækni (e. Technical Measures 81%
  • Skipulag (e. Organizational Measures) 88%
  • Hæfni (e. Capacity Development) 60%
  • Samvinna (e. Cooperative Measures) 81%

Undir lagalegt umhverfi fellur ýmis konar löggjöf og reglugerðir tengdar netöryggi í víðum skilningi, ekki einungis tæknilegum. Hér er t.d. einnig lagt mat á löggjöf um persónuvernd og um vernd barna á Netinu. Undir tækni fellur m.a. skipulag og störf netöryggissveitar, nýting netöryggisstaðla og skipulag verndar barna á Netinu. Undir skipulag fellur m.a. netöryggisstefna og skipulag eftirfylgni hennar, einnig skipulag mats á stöðu netöryggis. Undir hæfni fellur m.a. vitundarvakning, námskeið og vottun fyrir þá sem vinna við netöryggi, netöryggismenntun (bæði almenn og fyrir tilteknar starfsstéttir), rannsóknir, þróun og netöryggisiðnaður. Undir samvinnu fellur m.a. samvinna byggð á samvinnu við önnur ríki, þátttaka í alþjóðlegu starfi tengdu netöryggi og síðast en ekki síst samvinna stjórnvalda og atvinnulífs.

Í umsögn um Ísland segir að góður árangur hafi náðst hvað varðar lagalegt umhverfi og skipulag og úrbóta sé helst þörf varðandi hæfni. Þetta er sama niðurstaða og ráðuneytið birti opinberlega í svokallaðri grænbók vegna yfirstandandi stefnumótunar um netöryggismál. Það mat byggðist á sameiginlegri vinnu ráðuneyta og stofnana á vettvangi Netöryggisráðs.

Í nýrri netöryggisstefnu verður ný úttekt ITU notuð sem mælikvarði árangurs og markið sett á að halda áfram að ná góðri samstöðu um að bæta árangur Íslands á þessu sviði.

Staða Norðurlanda

Nágrannaríki okkar á Norðurlöndum hafa nú öll náð yfir 90% mögulegra stiga í úttekt Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Norðmenn fengu einkunnina 96.89% (11. sæti meðal Evrópuþjóða og 17. sæti á heimslistanum). Finnar koma næstir með 95.78% (14. og 22. sæti), svo Svíar með 94.59% (15. og 26. sæti) og loks Danir með 92.6% (19. og 32. sæti).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta