Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Verulegur samdráttur í losun 2020 - áhrif COVID-19 sýnileg

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Umhverfisstofnunar dróst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi saman um 5% milli áranna 2019 og 2020. Ef einungis er litið til losunar á beinni ábyrgð Íslands (þ.e. utan evrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir, ETS) nemur samdrátturinn rúmlega 6,5 prósentum milli ára. 


Samkvæmt bráðabirgðatölunum nam losun á Íslandi árið 2020 4.486 kílótonnum af CO2-ígildum. Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 13% og losun frá kælimiðlum (F-gösum) um 16%. Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst hins vegar um 7% og losun vegna úrgangs um 12%.

Gera má ráð fyrir að losun vegna umferðar á vegum aukist á ný á þessu ári vegna aukins ferðamannastraums. Má í því sambandi nefna að losun frá alþjóðaflugi dróst saman um 73% og alþjóðasiglingum um 58% í fyrra. Sú losun fellur þó utan skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum og er samdráttur á þessum sviðum ekki reiknaður með í ofangreindum heildartölum um samdrátt í losun Íslands. Bráðabirgðatölurnar ná ekki yfir losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF).

Breytingar á losun milli ára

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum eru meginbreytingar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda milli 2019 og 2020 eftirfarandi:

  • Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 13%, sem helgast fyrst og fremst af fækkun ferðamanna milli 2019 og 2020.
  • Losun frá kælimiðlum (F-gösum) dróst saman um 16% og er sá samdráttur að mestu vegna minni innflutnings á kælimiðlum.
  • Losun frá landbúnaði dróst saman um 1,5%, að mestu leyti vegna fækkunar sauðfjár.
  • Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst um 7% og er það að nokkru leyti vegna aukinnar hitavatnsframleiðslu úr gasríkum holum.
  • Losun vegna úrgangs jókst um 12% og tengist það minni metansöfnun á urðunarstöðum en árið á undan, sem var metár í metansöfnun.
  • Losun frá málmframleiðslu (innan evrópsks viðskiptakerfis, ETS) dróst saman um 2% og tengist minni framleiðslu 2020.
  • Losun frá alþjóðaflugi dróst saman um 73% og alþjóðasiglingum um 58%. Sá samdráttur fellur þó utan tölulegra skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum.

Þegar litið er til losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands (án landnotkunar og ETS) dróst hún saman um 6,5% milli áranna 2019-2020, og nam 2.693 kt CO2-ígildum árið 2020. Það ár voru stærstu einstöku uppsprettur losunar sem falla undir beina ábyrgð Íslands vegasamgöngur (31%), fiskiskip (19%) og iðragerjun búfjár (11%).

Umfang vegasamgangna í losun Íslands, sem og bráðabirgðagreiningar á eldsneytiskaupum leiða í ljós að samdráttur í losun frá vegasamgöngum helgaðist fyrst og fremst af fækkun ferðamanna milli 2019 og 2020. Tölurnar sýna að til þess að tryggja nauðsynlegan samdrátt í losun frá vegasamgöngum er mikilvægt að styðja virka og loftslagsvænni ferðamáta bæði hjá Íslendingum en ekki síður meðal erlendra ferðamanna.

4% samdráttur í losun á beinni ábyrgð Íslands frá 2005

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er sett markmið um samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands (þ.e. utan ETS og landnotkunar) um 40% til 2030 m.v. 2005. Krafa á Ísland í Parísarsamningnum, eins og hún er útfærð í samkomulagi Íslands og Noregs við Evrópusambandið og aðildarríki þess, er um samdrátt upp á 29% á því tímabili, en hún verður endurskoðuð og hert á næstunni í kjölfar þess að sameiginlegt markmið Íslands, Noregs og ESB hefur verið hert úr -40% í -55% til 2030 m.v. 1990. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum er losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2020 14% minni en hún var árið 2005.

 

  • Stærstu losunarþættir sem falla undir beina ábyrgð Íslands árið 2020. Losunarþættir minni en 5% eru undanskildir á þessari mynd. - mynd
  • Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands 2005-2020 (kt CO2-ígildi) - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum