EFTA-ráðherrarnir funduðu á Siglufirði
Óformlegur ráðherrafundur Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) fór fram á Siglufirði í kvöld en tilefnið var upphaf formennsku Íslands í EFTA-ráðinu sem stendur í eitt ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra bauð til fundarins. Hann markaði tímamót þar sem ráðherrarnir hittust í fyrsta sinn í eigin persónu eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á.
Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sátu fundinn Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtentstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í Sviss, en hann er auk þess forseti landsins.
„Það var mér sönn ánægja að geta haldið fyrsta fund EFTA-ráðherranna í eigin persónu í tuttugu mánuði,“ sagði Guðlaugur Þór en hann stýrði fundinum þar sem m.a. var rætt um stöðu alþjóðaviðskipta og viðhorf í garð EFTA-samstarfsins í hverju landi fyrir sig.
„Fundur sem þessi veitir okkur einstakt tækifæri til þess að kynnast betur og ræða málin í óformlegum aðstæðum. Og ekki skemmir fyrir einstakt landslagið hér á Siglufirði. Hér er einkar ánægjulegt að vera og móttökurnar hafa verið frábærar. Ég hlakka mjög til samstarfsins framundan,“ sagði Guðlaugur Þór.