Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samkomulag við Bretland á sviði menntunar og vísinda

Samkomulagið tryggir áfram greiðan aðgang íslenskra náms- og fræðimanna að breskum menntastofnunum. - myndPexels/Andrea Piacquadio

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur undirritað fyrir Íslands hönd samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda. Hann segir það fagnaðarefni að greiður aðgangur íslenskra náms- og fræðimanna að breskum menntastofnunum verði áfram tryggður.

Viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands eftir útgöngu ESB og EES hafa verið afar umfangsmiklar. Fyrir utan fríverslunarviðræður, sem lauk að fullu með undirritun nýs fríverslunarsamnings í nýliðinni viku, hafa viðræður einnig staðið yfir á fjölmörgum öðrum sviðum. Í morgun urðu þau tímamót að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Amanda Solloway, ráðherra vísinda, rannsókna og nýsköpunar í bresku ríkisstjórninni, undirrituðu samkomulag um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda.

„Fyrir utan eiginlegar fríverslunarviðræður voru rannsóknir og menntamál á meðal þess sem íslensk stjórnvöld settu á oddinn í viðræðum við Bretland um framtíðarsamband ríkjanna. Ég er afar ánægður að þetta mikilvæga mál sé nú í höfn og íslenskir námsmenn og fræðimenn hafi áfram greiðan aðgang að breskum háskólum og vísindastofnunum, sem eru með þeim fremstu í heimi, eftir útgönguna úr Evrópska efnahagssvæðinu“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Í nýja samkomulaginu eru auknir möguleikar á styrkjum til náms í Bretlandi fyrir íslenska nemendur sem áætlað er að verði í boði frá og með skólaárinu 2022-23. Þá munu íslensk og bresk stjórnvöld auka í sameiningu framlög til Chevening-sjóðsins til styrktar íslenskum nemum sem vilja stunda meistaranám í Bretlandi. Jafnframt verður stofnaður nýr sjóður til styrktar íslenskum nemendum sem vilja stunda framhaldsnám eða rannsóknir í Bretlandi á öllum fagsviðum. Í samkomulaginu er líka kveðið á um að settur verði á fót sérstakur árlegur samráðsvettvangur íslenskra og breskra háskóla. Honum er ætlað að auka og efla rannsóknasamstarf þjóðanna og auðvelda gerð samstarfssamninga vegna skiptináms á milli ríkjanna.

Ennfremur er í samkomulaginu fjallað um aukið samstarf á sviði geimvísinda í tengslum við geimáætlun breskra stjórnvalda. Til að mynda munu íslenskir nemendur fá tækifæri til starfsnáms hjá fyrirtækjum sem starfa á þessu sviði í Bretlandi, auk möguleika á tæknilegu samstarfi, t.d. við hönnun gervihnattaforrita. Þá er með samkomulaginu tryggt að breskar geimflaugar sem hafna á íslensku yfirráðasvæði eftir að hafa flutt gervihnetti á sporbaug séu þar með leyfi íslenskra stjórnvalda í samræmi við íslensk lög.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta