Utanríkisráðherrar Íslands og Bretlands funduðu í Lundúnum
Vaxandi tvíhliða samskipti Íslands og Bretlands, alþjóðamál og mannréttindi voru á meðal umræðuefna Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, á fundi þeirra í Lundúnum í morgun.
Guðlaugur Þór er staddur í Bretlandi vegna undirritunar á fríverslunarsamningi Bretlands við EFTA-ríkin innan EES: Ísland, Liechtenstein og Noreg. Í morgun skrifuðu þau Amanda Solloway, ráðherra vísinda, rannsókna og nýsköpunar í bresku ríkisstjórninni, undir samkomulag um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda.
Á fundi sínum ræddu þeir Guðlaugur Þór og Raab um samskipti ríkjanna og sameiginlega hagsmuni, meðal annars á sviði öryggis- og varnarmála. Í vor gerðist Ísland aðili að sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF) sem Bretland leiðir og sótti Guðlaugur Þór ráðherrafund aðildarríkjanna sem fram fór í Helsinki nýverið.
„Ísland og Bretland deila um margt bæði gildum og hagsmunum og hafa samskipti ríkjanna alla tíð verið náin og oftast góð. Ég er ekki í vafa um að nýgerðir samningar verði til að styrkja þetta samband á nær öllum sviðum og festa enn frekar í sessi. Við Raab vorum sammála um að halda áfram á sömu braut og að því leyti markar undirritun samninganna ekki endapunkt heldur upphafsreit,“ sagði Guðlaugur Þór að loknum fundinum í dag.
Mannréttindamál voru einnig á dagskrá en Ísland býður sig fram til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á tímabilinu 2025-2027. Þá voru alþjóðamál jafnframt til umræðu og vék Guðlaugur Þór m.a. að heimsókn stjórnandstöðuleiðtogans Sviatlönu Tsikhanouskayu til Íslands fyrr í þessum mánuði. Áréttaði hann í því sambandi að lýðræðisríki yrðu að halda áfram að gera stjórnvöldum í Belarús ljóst að mannréttindabrot þeirra og ofsóknir gegn umbótaöflum í landinu yrðu ekki látin óátalin.