Guðlaugur Þór sendi samúðarkveðjur vegna flóða í Þýskalandi og Belgíu
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur sent Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, og Sophie Wilmes, utanríkisráðherra Belgíu, samúðarkveðjur vegna mannskæðra flóða í ríkjunum tveimur í síðustu viku. Flóðin kostuðu að minnsta kosti tvö hundruð manns lífið en tuga er enn saknað. Þjóðarsorg var lýst yfir í Belgíu í gær, degi fyrir þjóðhátíðardag Belga sem er í dag. Í bréfunum segir Guðlaugur Þór hug sinn vera hjá fjölskyldum fórnarlambanna og öllum þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna flóðanna.