Uppbyggingarsjóður EES: Ekkert samkomulag við Ungverjaland
Ekki náðist samkomulag um starfsemi Uppbyggingarsjóðs EES í Ungverjalandi. Málið snýr að skipun sjóðsrekanda til að halda utan um fjármögnun til frjálsra félagasamtaka, en reglur sjóðsins kveða á um að hann skuli vera óháður stjórnvöldum. Því komast engar áætlanir undir Uppbyggingarsjóði EES til framkvæmda í Ungverjalandi á yfirstandandi fjármögnunartímabili.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir miður að samningar hafi ekki náðst. „Mér hefur þótt mikilvægt að vera áfram í góðu samstarfi við Ungverjaland. Margir íslenskir aðilar hafa tekið þátt í verkefnum á vegum sjóðsins í samstarfi við Ungverja. En það þarf að fylgja reglum sjóðsins og tryggja að hæfir aðilar fari með umsýslu fjármagns í viðtökuríkjunum. Þá er mikilvægt að þeir séu óháðir stjórnvöldum þegar kemur að því að útdeila fé til frjálsra félagasamtaka. Við höfum séð víða að svigrúm frjálsra félagasamtaka er skert og þannig vegið að grunnþáttum lýðræðisins, tjáningarfrelsi og félagafrelsi. Það hefur verið einhugur milli framlagaríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtenstein að standa vörð um þessi grundvallatriði,“ segir hann.
Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi með því markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli ríkjanna þriggja og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.