Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Ungir Íslendingar geti búið og starfað í Bretlandi

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi.  - mynd

Samkomulag er í höfn milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í dag en það gerir ungum Bretum að sama skapi mögulegt að búa og starfa á Íslandi. 

Viðræður um framtíðarsamband Íslands og Bretlands hafa verið afar umfangsmiklar. Í byrjun júlí undirritaði ráðherra nýjan fríverslunarsamning við Bretland og þá hefur einnig verið skrifað undir samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda.

Guðlaugur Þór fagnar samkomulaginu sem hann segir afar mikilvægt. „Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að tryggja tækifæri ungs fólks til þess að búa, starfa og mennta sig í Bretlandi, sem sést meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er fyrsta ríkið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu til að gera samning við Bretland um vinnudvöl ungs fólks frá því landið gekk úr Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að sterk tengsl ríkjanna muni styrkjast enn frekar með þessum samningi,“ segir Guðlaugur Þór. 

Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu þurfa allir sem vilja flytja til Bretlands að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands, en nýja samkomulagið mun auðvelda ungu fólki frá Íslandi ferlið til muna. 

Áætlað er að nýja fyrirkomulagið taki gildi í byrjun árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta