Auglýst eftir umsóknum um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Opnað hefur verið fyrir rafrænar umsóknir um jarðræktarstyrki í garðyrkju vegna útiræktunar á grænmeti, kartöflum og garðávöxtum til manneldis á Afurð.is, greiðslukerfi landbúnaðarins.
Umsóknum skal skilað eigi síðar en 15. ágúst næstkomandi. Vakin er athygli á að hægt er að skila skýrslu í Jörð og umsókn í AFURÐ án þess að endanleg uppskera ársins liggi fyrir.
Skilyrði fyrir veitingu stuðnings eru skil á skýrsluhaldi í skýrsluhaldsforritinu Jörð og fullnægjandi túnkort af ræktunarspildu sem sótt er um styrk fyrir. Kortið á að sýna þær ræktunarspildur sem eru grundvöllur að styrkjum. Þá er lögð áhersla á skráningu ræktunar, áburðargjafar, varnarefnanotkunar o.fl., í samræmi við ákvæði reglugerðar um stuðning við garðyrkju nr. 1273/2020.
Framlag á hvern hektara (ha) fyrir hvert bú tekur mið af heildarfjölda hektara sem sótt er um. Fjöldi hektara sem sótt er um reiknast í samræmi við eftirfarandi stuðla:
Fjöldi ha sem sótt er um Stuðull umsóttra ha
1-30 ha 1,0 fyrir rótarafurðir
1-30 ha 4,0 fyrir afurðir ræktaðar ofanjarðar
> 30 ha 0,7 fyrir rótararfurðir
> 30 ha 3,0 fyrir afurðir ræktaðar ofanjarðar
Hver framleiðandi getur ekki fengið hærri greiðslur samtals en 10% af því fjármagni sem til ráðstöfunar er árlega.
Vinsamlegast athugið að auglýsingin var uppfærð þann 6.8.2021.