Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2021 Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Kynntu aðgerðir til að efla skapandi greinar

Sett verður á fót sérstakt markaðsráð Skapandi Íslands, Listaháskólinn fer í nýtt húsnæði, stofnað verður rannsóknarsetur skapandi greina við Bifröst, Hagstofan mun birta menningarvísa og ritað hefur verið undir samning stjórnvalda og Listaháskólans um kvikmyndanám. Ríkisstjórnin kynnti í dag 5 aðgerðir úr aðgerðaáætlun sinni til eflingar skapandi greina.

Skapandi Ísland

Forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Íslandsstofa og miðstöðvar lista og skapandi greina kynntu í dag samkomulag um að efla kynningu á skapandi greinum og íslenskri list á erlendum vettvangi undir vinnuheitinu Skapandi Ísland.

Verkefninu er ætlað að auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum á Íslandi, styðja við útflutning íslenskra listamanna og hins skapandi geira og auka þannig útflutningstekjur af listum og skapandi greinum. Sett verður á fót markaðsráð sem verður til ráðgjafar um verkefnið í heild sinni.  

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra , Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdarstjóri Íslandsstofu, undirrituðu samning um framkvæmd verkefnisins Duushúsi í Reykjanesbæ í dag.

Gert er ráð fyrir að verkefninu verði lagðar til níutíu milljónir króna árlega. Íslandssstofa leggur til helming þeirrar fjárhæðar en mennta- og menningarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hinn helminginn.

Listaháskólinn í Tollhúsið

Unnið hefur verið að framtíðarlausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands og í dag kynnti ríkisstjórnin áform um að skólinn fái til afnota húsnæði í Tryggvagötu 19, þar sem Tollstjóri var áður til húsa.

Niðurstaða Framkvæmdasýslu ríkisins er að Tollhúsið mæti vel fjölbreyttum þörfum skólans, bæði hvað varðar staðsetningu og stærð, en gert er ráð fyrir að byggt verði við húsið. Þá er nálægð við aðrar mennta- og menningarstofnanir og fyrirtæki í nýsköpunargreinum einnig dýrmæt fyrir starfsemi skólans.

Fyrirhugað er að halda samkeppni um hönnun og endurgerð hússins sem kynnt verður á haustmánuðum.

Rannsóknarsetur á Bifröst og kvikmyndanám á háskólastigi

Þá var undirritaður samningur forsætisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við Háskólann á Bifröst um Rannsóknasetur skapandi greina.

Ennfremur var undirritaður samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Listaháskóla Íslands um kvikmyndanám á háskólastigi. Með samningnum er hrundið í framkvæmd mikilvægri aðgerð í kvikmyndastefnu, sem kynnt var á sl. vetri. Námið mun hefjast haustið 2022 og gert er ráð fyrir allt að 40 ársnemum.

Menningarvísar Hagstofunnar

Hagstofa Íslands birtir nú, hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með þeim má lesa hagræna mælikvarða tíu menningargreina (menningarvísa) á vef stofnunarinnar. Helstu niðurstöður benda til að flestar menningargreinar hafi verið í miklum vexti síðastliðinn áratug. Fjöldi rekstraraðila í menningargreinum hefur tvöfaldast en mest er fjölgunin í tónlist og sviðslistum. Yfirlit yfir þróun menningrvísa er að finna á vefsíðu Hagstofu Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta